
Hart er tekist á um stjórnarmyndun á Ítalíu eftir þingkosningarnar 4. mars. Flokkarnir tveir sem takast á um forystu á þingi komu sér þó saman um forseta beggja deilda þingsins laugardaginn 24. mars. Roberto Fico, þingmaður Fimm-stjörnu-hreyfingarinnar var kjörinn forseti neðri deildar þingsins en Elisabetta Alberti Casellati frá Forza Italaia (flokki Silvio Berlusconi) var kjörin forseti öldungadeildarinnar.
Litið er á þetta sem hrossakaup milli Fimm-stjörnunnar og hægri fylkingarinnar sem mynduð er af nokkrum flokkum þar á meðal Forza Italia. Eftir að þingforsetar hafa verið kjörnir hefst fyrir alvöru keppnin um stjórnarmyndun.
Fico (43 ára) fékk 422 atkvæði af 620 og Alberti Casellati (71 árs), fyrsta konan sem kjörin er forseti öldungadeildarinnar, fékk 240 atkvæði af 319.
Alberti Casellati var boðin fram rétt fyrir kjörið að morgni laugardagsins en í annarri umferð forsetakjörs í öldungadeildinni föstudaginn 23. mars náði enginn nægilegum fjölda atkvæða.
Nú þegar forsetar þingdeildanna hafa verið kjörnir getur Sergio Mattarella, forseti Ítalíu, tekið til við að ræða við leiðtoga stjórnmálaflokkanna um myndun stjórnar. Bæði Luigi Di Maio, leiðtogi Fimm-stjörnunnar, og Matteo Salvini, leiðtogi hægra-bandalagsins vilja umboð til stjórnarmyndunar.
Fimm-stjarnan sagði fyrir fáeinum dögum að hún gæti ekki stutt þann sem þá var frambjóðandi hægra-bandalagsins í öldungadeildinni. Það var Paolo Romani, efnahagsmálaráðherra í stjórn Berlusconis á sínum tíma, en árið 2014 var hann dæmdur fyrir fjársvik.
Innan fylkingar hægri manna var hart deilt á dögunum þegar Berlusconi ávítaði Salvini reiðilega fyrir að styðja frambjóðanda án þess að ráðgast um það við sig.
Mið-vinstri Lýðræðisflokkurinn neitar að styðja Fimm-stjörnuna eða hægri fylkinguna. Lýðræðisflokkurinn er þriðji stærsti flokkurinn með 23% stuðning.