Home / Fréttir / Þingamaður repúblíkana segir Hvíta húsið hafa breyst í „daggæslustofnun fyrir fullorðna“

Þingamaður repúblíkana segir Hvíta húsið hafa breyst í „daggæslustofnun fyrir fullorðna“

Bob Corker var eindreginn stuðningsmaður Trumps í kosningabaráttunni árið 2016.
Bob Corker var eindreginn stuðningsmaður Trumps í kosningabaráttunni árið 2016.

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Bob Corker, repúblíkani frá Tennessee og formaður utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar, sagði sunnudaginn 8. október að Hvíta húsið væri „daggæslustofnun fyrir fullorðna“.

Fjölmiðlamenn segja þetta einstakt orðaskak milli tveggja forystumanna í sama stjórnmálaflokki en það hófst á því að Donald Trump sendi frá sér þrjú „tíst“ um að Corker hefði „sárbænt“ sig um stuðning sem hann fékk ekki og þá hefði hann ákveðið að draga sig í hlé því að hann hefði ekki haft „hugrekki“ til að bjóða sig fram til endurkjörs árið 2018.

Corker svaraði á Twitter: „Það er dapurlegt að Hvíta húsið hefur breyst í daggæslustofnun fyrir fullorðna. Einhver hefur greinilega ekki mætt á vaktina í morgun.“

Á vefsíðu The Washington Post (WP) segir sunnudaginn 8. október að með því að hrekja Corker frá sér taki Trump meiri áhættu en áður í samskiptum sínum við þingmenn og þar með minnki enn líkur á framgangi þingmála á dagskrá hans. Kæmi til þess að Trump „afturkallaði“ staðfestingu á kjarnorkusamningnum við Íran yrði það verkefni Corkers að stjórna afgreiðslu öldungadeildarinnar á málinu og þar með hugsanlegri tillögu Trumps um að taka að nýju upp refsiaðgerðir gegn Írönum.

Corker situr einnig í fjárlaganefnd öldungadeildarinnar og því kemur til hans kasta á næstunni í umræðum um skattatillögur Trumps. Corker hefur nú þegar lýst efasemdum um efni nokkurra þessara tillagna.

Forsetinn veittist að Corker opinberlega nokkrum dögum eftir að þingmaðurinn komst í fréttir vegna ummæla um að margt benti sterklega til þess að forystumenn þjóðaröryggisráðsins sinntu mikilvægri gæslu og umönnun sem forsetinn þarfnaðist. Corker sagði við fréttamenn að Rex Tillerson utanríkisráðherra, Jim Mattis varnarmálaráðherra og John F. Kelly, liðsstjóri í Hvíta húsinu, væru „þeir sem halda þjóðinni frá upplausn“.

Trump þolir illa opinbera gagnrýni og stærir sig af því að láta engan eiga neitt inni hjá sér í opinberum umræðum. Hann veittist að Corker í þremur færslum á Twitter að morgni sunnudags 8. október. Þingmaðurinn tilkynnti í september að hann mundi ekki leita eftir endurkjöri á árinu 2018.

Forsetinn sagði í færslunum: „Bob Corker öldungadeildarþingmaður „sárbændi“ mig um að styðja sig til endurkjörs í Tennessee. Ég sagði NEI og hann dró sig í hlé (sagðist ekki geta unnið án … stuðnings míns). Hann vildi einnig verða utanríkisráðherra, ég sagði NEI TAKK. Hann ber einnig verulega ábyrgð á hryllilega samningnum við Íran! Þess vegna bjóst ég alveg við því að Corker yrði neikvæður og legði stein í götu stórbrotinna áforma okkar. Hafði ekki hugrekki til framboðs!“

WP vitnar í starfsmann þingflokks repúblíkana sem fylgst hefur með orðaskiptum Trumps og Corkers segir að forsetinn fari ekki með rétt mál í færslum sínum. Hann segir að Trump hafi haft samband við Corker snemma í síðustu viku og beðið hann að endurskoða ákvörðun sína um að leita ekki eftir endurkjöri. Þá hefði forsetinn staðfest að hann hefði lýst yfir stuðningi við Corker hefði hann ákveðið að gefa kost á sér.

Corker var áberandi stuðningsmaður Trumps í kosningunum árið 2016 og Trump velti fyrir sér að bjóða honum sæti varaforseta eða utanríkisráðherra. Corker var í hópi fárra öldungadeildarþingmanna sem hafði persónulegt samband við Trump og fjölskyldu hans en á liðnu sumri kólnuðu samskipti þeirra.

Corker gagnrýndi í ágúst hvernig Trump brást við mannskæðum mótmælaaðgerðum baráttumanna hvíta kynstofnsins í Charlottesville. Corker sagði: „Forsetanum hefur ekki enn tekist að sýna nauðsynlegan stöðugleika eða hæfni til að sanna að hann geti náð árangri.“

Þetta vakti reiði Trumps sem sagði á Twitter: „Tennessee ekki ánægt!“

Corker er ekki eini öldungadeildarþingmaðurinn sem sætt hefur gagnrýni frá Trump. Hann hefur undanfarið látið þessa þingmenn heyra það: Mitch McConnell leiðtoga þingflokksins, Lindsey O. Graham, John McCain og  Jeff Flake.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …