Home / Fréttir / Þing Svartfjallalands fullgildir NATO-aðild

Þing Svartfjallalands fullgildir NATO-aðild

Þing Svartfjallalands samþykkir NATO-aðild.
Þing Svartfjallalands samþykkir NATO-aðild.

Þing Svartfjallalands hefur fullgilt aðild landsins að NATO. Í fullgildingunni felst söguleg ákvörðun um að tengja landið Vesturlöndum þrátt fyrir mótmæli þeirra sem vilja að þjóðin eigi samstöðu með Rússum og þrátt fyrir mótmæli rússneskra stjórnvalda.

Þingmenn komu saman í  Cetinje föstudaginn 28. apríl og samþykktu með 46:0 að fullgilda aðildarsamninginn. Alls situr 81 á þinginu en stjórnarandstaðan lét hjá líða að taka þátt í hátíðarfundinum.

Dusko Markovic forsætisráðherra sagði í þingræðu að í NATO-aðildinni fælist trygging fyrir öryggi Svartfjallalands til frambúðar auk efnahagsframfara og stöðugleika á svæðinu.

„Dagsins verður minnst sem eins bjartasta dags í sögu okkar,“ sagði Markovic.

Nokkur hundruð stjórnarandstæðingar komu saman fyrir utan þinghúsið áður en fundurinn hófst þar og hrópuðu „Svik!“ og „Þjófar!“ Á rauðum borða stóð: „NATO-morðingjar, hendur ykkar eru blóðugar!“

Í tilkynningu rússneska utanríkisráðuneytisins sagði: „Okkur er mjög sárt að viðurkenna að núverandi forystumenn landsins og vestrænir félagar þeirra hlustuðu ekki á rödd skynsemi og samvisku.“ Ráðuneytið hélt því fram að „næstum helmingur“ Svartfellinga væri andvígur aðildinni að NATO.

Í tilkynningunni sagði að ráðamenn í Moskvu gætu ekki „látið hjá líða að taka mið af herstjórnarlegum afleiðingum þessa skrefs“. Þeir áréttuðu því rétt sinn til að taka „ákvarðanir sem miða að því að gæta hagsmuna og þjóðaröryggis“ Rússa.

Íbúar Svartfjallalands eru 645.000 og þar er 2.000 manna her. Vonir standa til þess að landið verði fullgildur aðili NATO í júní 2017. Þing Hollands og Spánar eiga eftir að samþykkja aðildina. Þess er beðið í Hollandi að frestur til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um málið líði.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …