Home / Fréttir / Þing Makedóníu samþykkir nýtt nafn landsins

Þing Makedóníu samþykkir nýtt nafn landsins

 

Veggjakrotið minnir á þjóðaratkvæðagreiðsluna um nafnið.
Veggjakrotið minnir á þjóðaratkvæðagreiðsluna um nafnið.

Aukinn meirihluti þingmanna Makedóníu styður að land þeirra heiti framvegis Norður-Makedónía. Nú verður gengið til þess verks að hrinda nafnbreytingunni í framkvæmd með stjórnarskrárbreytingu. Með henni er opnuð leið fyrir aðild landsins að NATO og ESB.

Tillagan um nýtt nafn var samþykkt með 80 atkvæðum gegn 39 föstudaginn 19. október. Næsta skref er að breyta stjórnarskránni í þessa veru. Þar með verður unnt að standa við ákvæði samnings við Grikki frá því í júní 2018 um nýja nafnið.

Zoran Zaev, forsætisráðherra Jafnaðarmannaflokksins, tókst að lokum að fá stuðning tveggja þriðju af 120 mönnum sem sitja á þingi Makedóníu.

Andstæðingar nýja nafnsins sökuðu ríkisstjórnina um að bjóða þingmönnum allt frá 250.000 evrum til 2 milljóna evra (34 til 270 m. ísl. kr.) fyrir stuðning sinn við stjórnarfrumvarpið. Flokkur Zaevs hafnaði þessum ásökunum og sagðist svara þeim með málsókn.

Zaev sagði að næði frumvarp sitt ekki fram að ganga yrði þing rofið og gengið til kosninga.

Með samkomulaginu sem Zaev og Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, rituðu undir í júní 2018 lauk 27 ára deilu stjórnvalda landanna um nafnið. Grikkir voru þeirrar skoðunar að nafnið Makedónía gæfi til kynna ráð yfir héraði með því nafni innan landamæra sinna.

Tsipras sendi Zaev heillaóskir á Twittereftir atkvæðagreiðsluna. „Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í kvöld er stórt skref til sameiginlegs árangurs okkar. Mjög mikilvægt skref til friðsamlegrar og blómlegrar framtíðar þjóða okkar!“ sagði gríski forsætisráðherrann.

Efnt var til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið í Norður-Makedóníu. Um 90% vildu nýtt nafn en andstæðingar hvöttu fylgismenn sína til að sitja heima og innan við 50% tóku þátt og var atkvæðagreiðslan ekki bindandi. Þingmenn áttu því lokaorðið í málinu.

Breytingin á stjórnarskránni getur tekið langan tíma og á ferli hennar eru margar atkvæðagreiðslur á þingi.

Að lokinni stjórnarskrárbreytingu í Norður-Makedóníu verða greidd atkvæði um málið á gríska þinginu. Óvíst er hvernig atkvæði falla þar. Margir grískir þjóðernissinnar eru alfarið andvígir því að aðrir en Grikkir eigi yfirleitt rétt til nafnsins Makedóníu.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …