Home / Fréttir / Þing Georgíu glímir við höfnun forsetans á „rússnesku lögunum“

Þing Georgíu glímir við höfnun forsetans á „rússnesku lögunum“

„Rússnesku lögunum“ mótmælt í Georgíu.

Laganefnd þings Georgíu leggur til að hafnað sé ákvörðun Salome Zurabishvili, forseta Georgíu, um að neita að staðfesta lög gegn „erlendum útsendurum“ að rússneskri fyrirmynd. Kann frumvarpið að koma til lokaafgreiðslu á þinginu í Tiblísi þriðjudaginn 28. maí. Litið er á samþykkt frumvarpsins sem hindrun á leið Georgíu til aðildar að ESB og NATO.

Mótmælendur hafa vikum saman lýst andstöðu við að lögin komi til framkvæmda. Þingnefndin komst að þessari niðiurstöðu þrátt fyrir fjöldamótmæli í höfuðborginni Tiblísi sunnudaginn 26. maí og þrátt fyrir að Levan Ioseliani, umboðsmaður þingsins, hafi hvatt til breytinga lögunum til að minnka neikvæð áhrif þeirra á frjálsa samfélagsþróun í Georgíu. Lögin eru uppnefnd „rússnesku lögin“ því að fyrirmynd þeirra eru lög sem rússneska þingið samþykkti árið 2012. Þau hafa síðan orðið að tæki stjórnvalda til þess að hefta félaga- og fjölmiðlafrelsi.

Stjórnarflokkur Georgíu, Draumur Georgíu, berst fyrir framgöngu málsins en hann hefur hreinan meirihluta á þingi. Flokkurinn lítur á endanlega afgreiðslu laganna eftir höfnun forsetans sem hreint formsatriði

Levan Ioseliani, umboðsmaður þingsins, sagði á blaðamannafundi mánudaginn 27. maí að það hefði þegar skaðað lýðræðislegt ferli að þingið hefði samþykkt lagafrumvarpið og sent lögin til forsetans í þeim búningi sem þau væru. Þingmenn hefðu enn þann kost að hafna tillögu um að hafa ákvörðun forsetans að engu og skapa þannig skilyrði til breytinga á öðrum lögum. Hann sagði að oft væri litið á það sem merki um veikleika að menn drægju í land en stundum væri það hins vegar merki um styrkleika.

Efnt var til hátíðarhalda í Tiblisi sunnudaginn 26. maí til að minnast sjálfstæðisdags Georgíu. Fjöldi ungs fólks fór þá í hátíðargöngu og hvatti stjórnarflokkinn, Draum Georgíu, til að sjá að sér.

Rithöfundurinn Lasha Bugadze ávarpaði göngu unga fólksins undir fánum Evrópu og Georgíu og sagði: „Við erum óþreytandi í baráttu okkar þótt þeir héldu að við yrðum uppgefin. Við þreytumst ekki heldur næstu daga, ekki fyrr en rússnesku lögin verða dregin til baka og Georgía verður hluti Evrópu.“

Salome Zurabishvili forseti sagði í hátíðarræðu sinni í tilefni sjálfstæðisdagsins að samlegð með Evrópusambandinu og sterk tengsl við Bandaríkin væru lífsnauðsynleg til að íbúar Georgíu og land þeirra varðveitti frelsi sitt.

„Þetta er hyrningarsteinn lausnarinnar,“ sagði hún í ávarpi á Frelsistorginu í Tiblísi. Nú þegar stöndum frammi fyrir rússneska draugnum eru samstarf og nánari samskipti við Evrópu og Ameríku sannfærandi leið til að varðveita sjálfstæði okkar, frið og styrkleika,“ sagði forsetinn og vitnaði þar til óska yfirgnæfandi fjölda meðal Georgíumanna um að ganga í Evrópusambandið. ESB viðurkenndi Georgíu sem umsóknarríki í desember 2023.

Bandaríkjastjórn hvetur þing Georgíu til að hafna „rússnesku lögunum“ og standa á lýðræðislegan hátt að þingkosningunum sem eiga að fara fram í landinu í október 2024.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …