
Theresa May, forsætisráðherra Breta, gagnrýndi Rússa og Vladimir Pútin, forseta Rússlands, harðar en nokkru sinni fyrr í ræðu sem hún flutti í árlegum hátíðarkvöldverði borgarstjóra City of London (Lord Mayor og the City of London) í Guildhall mánudaginn 13. nóvember.
Í kafla ræðunnar sem snerist um utanríkis- og varnarmál lagði May áherslu á nauðsyn þess að NATO-ríkin og samstarfsaðilar þeirra stæðu þétt saman um skýra stefnu og markmið. Þar skipti mestu að leggja rækt við varanlegt samstarf ríkjanna beggja vegna Atlantshaf og treysta samskipti Breta við bandamenn sína í Evrópu.
Theresa May sagði:
„Hlutur Bandaríkjamanna við að móta skipan heimsmála er jafnvel lífsnauðsynlegri nú en nokkru sinni.
Við erum auðvitað ekki alltaf sammála um hverja einstaka ákvörðun eða aðgerð. Að baki þessa sambands er hins vegar bandalag í þágu gilda og hagsmuna þjóða okkar sem hefur lagt gott eitt af mörkum um langa hríð – og verður að gera það áfram.
Sama er að segja um samskiptin við evrópska samstarfsaðila okkar þegar við kveðjum ESB. Við höldum áfram að vera Evrópuþjóð – saga okkar mótast af sameiginlegri reynslu, samfélög okkar af sameiginlegum gildum, efnahagurinn er nátengdur og öryggið óaðskilið.
Eins og ég sagði í ræðu minni í Flórens munu Bretar leggja skilyrðislaust sitt af mörkum til að tryggja öryggi Evrópu.
Alhliða nýtt samstarf okkar á sviði efnahagsmála mun standa að baki sameiginlegum vilja okkar til að njóta opins hagkerfis og frjálsra þjóðfélaga andspænis þeim sem reyna að grafa undan þeim.
Um þessar mundir standa auðvitað Rússar þar fremstir.
Pútín forseti sagði fyrir skömmu í ræðu að ríki mættu ekki styrkja eigin strategíska stöðu á kostnað annarra þótt hagsmunir ríkja færu ekki alltaf saman. Þegar ríki láti undir höfuð leggjast að virða almennt viðurkenndar samskiptareglur og gæti eigin hagsmuna án tillits til annarra kalli það fram andstöðu og deilur verði ófyrirsjáanlegar og hættulegar.
Við Pútín forseta vil ég segja: Ég er sammála. Til þess ber þó að líta að það eru aðgerðir Rússa sem ógna skipan alþjóðamála en öll eigum við allt undir henni.
Ég vil skýra umfang og eðli þessara aðgerða.
Með ólögmætri innlimun Rússa á Krím beitti fullvalda ríki í fyrsta sinn síðan í seinni heimsstyrjöldinni valdi til að ná landsvæði af öðru ríki í Evrópu. Síðan hafa Rússar ýtt undir átök í Donbass, hvað eftir annað brotið gegn lofthelgi einstakra Evrópuríkja og hafið langvinna baráttu með netnjósnum og truflunum. Þeir hafa blandað sér í kosningar, gert tölvuinnbrot í danska varnarmálaráðuneytið og Bundestag [þýska þingið] svo að eitthvað af mörgu sé nefnt.
Þeir reyna að vígvæða upplýsingar. Þeir nota ríkisrekna fjölmiðla til að planta falsfréttum og breyttum ljósmyndum í von um að geta skapað sundrung á Vesturlöndum og grafið undan stofnunum okkar.
Skilaboð mín til Rússa eru því ofureinföld.
Við vitum hvað þið eruð að gera. Þetta mun ekki heppnast hjá ykkur. Þið vanmetið einfaldlega viðnámsþrótt okkar lýðræðisþjóðanna, varanlegt aðdráttarafl frjálsra og opinna þjóðfélaga og hollustu vestrænna þjóða við bandalögin sem tengja okkur.
Bretar munu gera það sem er nauðsynlegt okkur til varnar og við vinnum með bandamönnum að þessu sama.
Þess vegna vinnum við að umbótum á NATO svo að þetta lífsnauðsynlega bandalag sé betur í stakk búið til að halda aftur af og snúast gegn óvinabrögðum Rússa. Þess vegna höfum við aukið hernaðarlega og fjárhagslega aðstoð við Úkraínumenn.
Þess vegna erum við að efla netvarnir okkar og leita leiða til að efla fjármálaeftirlit í því skyni að tryggja að hagnaður af spillingu flæði ekki frá Rússlandi til Bretlands.
Við munum því grípa til nauðsynlegra ráða til að svara aðgerðum Rússa. Við kjósum þó ekki þetta ástand og viljum ekki að samskiptin við Rússa séu á þennan veg.
Við viljum ekki snúa aftur til kalda stríðsins eða búa við ástand sem einkennist af stöðugum árekstrum.
Í þessu felst að við verðum að sýna frumkvæði samhliða því sem við erum á varðbergi – utanríkisráðherrann mun því á næstu mánuðum fara til Moskvu.
Það er nefnilega til önnur leið.
Mörg okkar sem hér erum bundum vonir við Rússland að Sovétríkjunum föllnum.
Okkur er ljóst að sterkt og blómlegt Rússland sem virðir leikreglunnar er til hagsbóta fyrir Bretland, Evrópu og heiminn allan.
Rússar eiga fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og njóta sem slíkir réttar og þeim er jafnframt skylt að gegna lykilhlutverki í þágu alþjóðlegs stöðugleika.
Rússar geta valið aðra leið og ég vona að þeir geri það.
Á meðan Rússar gera það ekki munum við starfa saman að því að gæta hagsmuna okkar og þá skipan alþjóðamála sem fellur að þeim.“