
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hitti Donald Trump Bandaíkjaforseta í Hvíta húsinu í Washington föstudaginn 27. janúar, fyrst þjóðarleiðtoga til að heimsækja Trump eftir að hann varð forseti. Þau ítrekuðu gildi séstaks sambands ríkja sinna og að þau mundu leggja rækt við það.
Að loknum fundi sínum efndu þau til 18 mínútna langs blaðamannafundar. Við komuna í Hvíta húsið var tekin mynd af þeim í skrifstofu forsetans fyrir framan brjóstmynd af Winston Churchill, forsætisráðherra Breta, sem Barack Obama lét fjarlægja úr skrifstofunni þegar hann settist að í Hvíta húsinu.
Á blaðamannafundinum sneri Theresa May sér að Trump og sagði: „Þú sagðist vera 100% að baki NATO.“ Forsetinn tók undir það og þau áréttuðu „óbifanlegar skuldbindingar“ ríkja sinna gagnvart bandalaginu.
Í inngangsorðum sínum flutti May hamingjuóskir til Trumps vegna „frábærs sigurs“ í kosningunum. Hún tók undir með Trump að boð hans til hennar væri til marks um styrk og mikilvægi sérstaks sambands þjóða þeirra sem væri reist á sögulegum tengslum, fjölskylduböndum, skyldleika og sameiginlegum hagsmunum.
Trump sagði að Brexit – úrsögn Breta úr ESB – yrði „glæsileg“ fyrir Breta og með henni opnuðust tækifæri til nýrra viðskiptasamninga. Bæði lýatu þau áhuga á tvíhliða viðskiptasamningi ríkja sinna og yrði hafist handa við gerð hans jafnskjótt og Bretum væri það heimilt vegna aðildar sinnar að ESB.
Það væri enn til marks um gildi sambands þjóðanna, sagði May, að Bretadrottning hefði boðið Trump og eiginkonu hans í opinbera heimsókn til Bretlands síðar á þessu ári og það væri ánægjulegt að forsetinn hefði þegið boðið.
Trump var spurður um afstöðu sína til pyntinga. Hann sagðist hafa þá trú að pyntingar skiluðu árangri en hann mundi þó ekki gefa fyrirmæli um þær. Hann mundi láta James Mattis varnarmálaráðherra, sem teldi pyntingar ekki þjóna tilgangi, ákveða hvað best væri í þessu efni. Trump sagði um Mattis:
„Hann hefur opinberlega lýst því að hann trúi ekki endilega á pyntingar eða vatnsdýfingar, eða hvernig sem þið viljið skigreina það … ég er ekki endilega sammála því. Ég segi ykkur hins vegar að hann hefur betur vegna þess að ég veiti honum vald til þess, hann er sérfræðingurinn.“
Á blaðamannafundinum heyrðist að þau May og Trump eru ekki alveg samstiga varðandi refsiaðgerðir gegn Rússum. May var harðari í afstöðu sinni en Trump og sagði að Bretar vildu að refsiaðgerðum yrði haldið áfram þar til Minsk-friðarsamkomulagið frá árinu 2015 kæmi að fullu til framkvæmda.
Trump sagði hins vegar að það væri „alltof snemmt að tala um þetta“, hann vildi „æðislegt samband“ við Vladimir Pútín Rússlandsforseta eins og aðra þjóðarleiðtoga. Þetta kynni þó að fara á annan veg.
Trump og Pútín ætla að ræða saman í síma laugardaginn 28. janúar.