Home / Fréttir / Theresa May segir af sér sem forsætisráðherra

Theresa May segir af sér sem forsætisráðherra

 

May sagði af sér með ræðu í Downing stræti. Rödd hennar brast áður en hún sneri aftur inn í forsætisráðherrabústaðinn.
May sagði af sér með ræðu í Downing stræti. Rödd hennar brast áður en hún sneri aftur inn í forsætisráðherrabústaðinn.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, tilkynnti að morgni föstudags 24. maí að hún mundi segja af sér sem forsætisráðherra 7. júní en sitja áfram sem starfandi ráðherra þar til Íhaldsflokkurinn hefði valið eftirmann hennar. Kannanir nú sýna Boris Johnson, fyrrv. utanríkisráðherra og borgarstjóra London, sigurstranglegastan.

May sat tæp þrjú ár í embætti forsætisráðherra. Markmið hennar var að tryggja framgang brexit, úrsagnar Breta úr ESB. Hún gerði skilnaðarsamning við ESB sem var felldur þrisvar sinnum í neðri deild breska þingsins. Þegar hún kynnti ríkisstjórn sinni samninginn í fjórða sinn miðvikudaginn 22. maí voru henni settir afarkostir og því spáð í fjölmiðlum að hún boðaði afsögn sína 24. maí. Það gekk eftir.

Theresa May varð forsætisráðherra í júlí 2016. David Cameron, forveri hennar, sagði af sér eftir að þjóðaratkvæðagreiðsla sem hann boðaði og efnt var til 23. júní 2016 leiddi til brexit þvert á það sem Cameron vænti. Hann taldi að með atkvæðagreiðslunni mundi honum takast að skapa frið innan Íhaldsflokksins. Deilur um afstöðuna til ESB hafa aldrei verið hatrammari innan Íhaldsflokksins en nú.

May var fyrst kjörin á þing árið 1997 og var formaður Íhaldsflokksins frá maí 2002 til nóvember 2003. Hún sat sem innanríkisráðherra í rúm sex ár frá 2010. Þá þótti hún fylgja harðri útlendingastefnu. Naut hún virðingar margra fyrir stefnufestu og fumlausa stjórnsýslu.

Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2016 studdi hún að Bretar yrðu áfram í ESB. Eftir að hún varð forsætisráðherra lagði hún sig fram um að fullvissa andstæðinga aðildar um að hún virti sjónarmið þeirra og óskir.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …