Home / Fréttir / Theresa May kynnir Brexit-samkomulag – uppnám meðal íhaldsþingmanna

Theresa May kynnir Brexit-samkomulag – uppnám meðal íhaldsþingmanna

46147366_303

Tilkynnt var síðdegis þriðjudaginn 13. nóvember að samningamenn Evrópusambandsins og Breta hefðu loks náð samkomulagi um skilnað Breta við sambandið. Næsta skref er að Theresu May, forsætisráðherra Breta, takist að sannfæra stjórn sína og meirihluta þingmanna um að styðja samninginn.

May boðaði til ríkisstjórnarfundar miðvikudaginn 14. nóvember en að kvöldi þriðjudagsins ræddi hún einslega við ráðherra og forystmenn þingflokks íhaldsmanna um efni samningsins.

Írska ríkisútvarpið RTE segir að með samningnum sé leyst úr deilunni vegna landamæranna milli Írska lýðveldisins og Norður-Írlands. Þetta atriði hefur þvælst mjög fyrir samningamönnunum.

May varð forsætisráðherra eftir að David Cameron, þáv. leiðtogi Íhaldsflokksins, sagði af sér eftir að Bretar höfnuðu aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní 2016. Hún var andvíg úrsögn Breta fyrir atkvæðagreiðsluna en hefur staðfastlega sagt að hún færi að vilja þjóðarinnar í málinu. Harðlínumenn í Íhaldsflokknum telja hana of lina gagnvart ESB og vilja hafa hreinna borð en sé að finna í þeim textum sem hún hefur kynnt. Innan flokksins eru einnig talsmenn þess að Bretar leggi rækt við ESB-samskiptin þótt þeir fari úr EES. Samningamenn ESB hafa hafnað fjölmörgum tillögum og kröfum frá May.

Það verður þungur róður fyrir May að fá þingmenn Íhaldsflokksins til að styðja niðurstöðuna eða hvaða niðurstöðu sem er. Boris Johnson sem sagði af sér embætti utanríkisráðherra fyrir nokkru til að andmæla stefnu May segir að hann sé andvígur samkomulaginu.

Ríkisstjórn May nýtur stuðnings DUP-flokksins á Norður-Írlandi, flokkurinn hefur líf stjórnarinnar í hendi sér. Forystumenn flokksins sögðu að þeir ætluðu að kynna sér efni samningsins sem er mörg hundruð blaðsíður að lengd áður en þeir tækju ákvörðun um hvernig þeir höguðu atkvæðum sínum.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, stjórnarandstöðuflokksins, sagði: „Við munum skoða alla þætti samkomulagsins þegar þeir hafa verið kynntir. Brokkgengar viðræðurnar gefa til kynna að þetta sé ekki góð niðurstaða fyrir þjóðina.“

Jacob Rees-Mogg, höfuðandstæðingur Brexit meðal þingmanna Íhaldsflokksins, sagði: „Ég vona að ríkisstjórnin stöðvi þetta, gerist það ekki vona ég að þingið geri það. Mér finnst allt sem ég veit um þennan samning benda til þess að hann sé óviðunandi.“

Ian Duncan-Smith, þingmaður og fyrrv. leiðtogi Íhaldsflokksins, sagði að dagar Theresu May sem flokksleiðtoga og forsætisráðherra væru taldir.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …