Home / Fréttir / Theresa May boðar upprætingu á öfgahyggju íslamista

Theresa May boðar upprætingu á öfgahyggju íslamista

 

Theresa May ávarpar þjóðina eftir hryðjuverkin í London.
Theresa May ávarpar þjóðina eftir hryðjuverkin í London.

Hryðjuverk var framið í London að kvöldi laugardags 3. júní, ekið var á fótgangandi vegfarendur á London Bridge og síðan óku illvirkjanir áfram að Borough Market þar sem þrír hryðjuverkamenn stigu úr bílnum og réðust á almenna borgara með sveðjum og hnífum. Þeir voru klæddir gervi-sprengjuvestum til að hræða fólk. Lögreglan skaut og drap hryðjuverkamennina innan átta mínútna frá því að henni barst tilkynning um ódæðisverkin. Auk illvirkjanna liggja sjö í valnum þegar þetta er skrifað og 48 eru særðir á fimm sjúkrahúsum í London.

Sunnudaginn 4. júní, hvítasunnudag, klukkan rúmlega10.30 að enskum tíma (09.30 ísl. tími) ávarpaði Theresa May forsætisráðherra bresku þjóðina frá Downing-stræti, við bústað breska forsætisráðherrans. Kjarni máls hennar var að nú væri „nóg komið“. Vísaði hún til hryðjuverksins við breska þinghúsið í mars, í Manchester fyrir tveimur vikum og nú þessa. Þá hefðu leyniþjónustustofnanir Breta og lögreglan hindrað fimm líkleg hryðjuverk síðan í mars 2017.

Forsætisráðherrann sagði að þegar litið væri til skipulagningar og framkvæmdar nýlegra hryðjuverka í Bretlandi væri ekki talið að þau væru tengd en Bretar stæðu að mati yfirvalda frammi fyrir annars konar ógn en áður. Hryðjuverk vektu áhuga illvirkja sem vildu láta að sér kveða ekki endilega á þaulskipulagðan hátt eða einir að verki eftir að hafa kynnst öfgahyggju á netinu heldur með því að herma eftir öðrum, oft með frumstæðustu aðferðum.

Þá sagði forsætisráðherrann:

„Við getum ekki og megum ekki láta eins og þetta geti gengið svona áfram. Það verður að taka á málum og það ber að gera á fjórum mikilvægum sviðum.

Í fyrsta lagi ber að líta til þess að nýlegar árásir eru tengdar á mikilvægan hátt þótt ekki séu sameiginleg tengsl milli þeirra. Þær eiga rót í illri hugmyndafræði íslamskrar öfgahyggju sem boðar hatur, sáir sundrung og stuðlar að kreddutrúarstefnu.

Í hugmyndafræðinni felst að vestræn gildi okkar sem snúast um frelsi, lýðræði og mannréttindi falli ekki að múhameðstrú. Þetta er hugmyndafræði sem af flytur múhameðstrú og af flytur sannleikann.

Það er ein mesta áskorun líðandi stundar að sigrast á þessari hugmyndafræði en sá sigur vinnst ekki aðeins með hernaðaríhlutun.

Hún verður ekki sigruð með viðvarandi gagn-hryðjuverkaaðgerðum sama hve vel er að þeim staðið af hæfu fólki.

Hún verður aðeins sigruð þegar við beinum huga fólks frá þessu ofbeldi og fáum það til að skilja að gildi okkar – fjölbreytt bresk gildi – eru fremri öllu því sem flutt er af boðendum og stuðningsmönnum haturs.

Í öðru lagi getum við ekki leyft þessari hugmyndafræði að njóta þess örugga rýmis sem hún þarf til að dafna.

Þó skapast einmitt slíkt rými á internetinu og hjá stórfyrirtækjum sem veita þjónustu þar.

Við verðum að vinna með stjórnvöldum lýðræðislegra bandamanna okkar að því að gerðir verði alþjóðasamningar um reglur í netheimum til að hindra útbreiðslu öfgahyggju og undirbúning hryðjuverka.

Og við verðum að gera allt heima fyrir til að draga úr hættunni á öfgahyggju á netinu.

Í þriðja lagi. Það dugar ekki að svipta grunaða hryðjuverkamenn öruggu rými á netinu og gleyma að í raunheimi njóta þeir einnig skjóls í öruggu rými. Já, í þessu felst beiting hervalds til að eyðileggja ISIS [Daesh, Ríki íslams] í Írak og Sýrlandi. Í þessu felst einnig að grípa til aðgerða á heimavelli.

Þótt verulega hafi miðað undanfarin ár skulum við vera hreinskilin og viðurkenna að alltof mikið umburðarlyndi er gagnvart öfgahyggju í landi okkar. Við verðum því að taka okkur verulega á til að greina hana og þurrka hana út á almannavettvangi og hvarvetna í þjóðfélaginu. Þetta krefst ýmissa erfiðra og óþægilegra samtala en við verðum öll að taka höndum saman til að uppræta þessa öfgahyggju og við verðum að geta lifað lífinu án þess að skiptast í aðskilin samfélög og mynda þess í stað sameinað konungdæmi í orðsins fyllstu merkingu.

Í fjórða lagi fylgjum við öflugri gagn-hryðjuverkastefnu sem reynst hefur árangursrík í áranna rás. Við verðum hins vegar að laga þessa stefnu að breyttum aðstæðum þegar ógnin sem að okkur steðjar verður flóknari, sundraðri, huldari, einkum á netinu. Eftir því sem við fræðumst meira um breytingu á ógninni verðum við að endurskoða bresku gagn-hryðjuverkastefnuna til að tryggja að lögregla og öryggisstofnanir hafi allar nauðsynlegar valdheimildir.

Ef við þurfum að lengja gildistíma gæsluvarðhaldsúrskurða vegna afbrota sem tengd eru hryðjuverkum, jafnvel vegna afbrota sem ekki virðast alvarleg, verðum við að gera það.

Frá því að hryðjuverkaógn fór að stafa af íslamistum hefur verið gripið til markverða aðgerða hér á landi til að koma upp um samsæri og vernda almenning. Að þessu sinni er tímabært að segja „nú er nóg komið“. Öll verðum við þó að haga lífi okkar eins og venjulega.

Samfélag okkar verður að starfa áfram á grundvelli gilda okkar en í baráttunni við öfgahyggju og hryðjuverk er breyting óhjákvæmileg.

Í virðingarskyni hafa stjórnmálaflokkarnir tveir ákveðið að gera hlé á kosningabaráttunni í dag en aldrei verður liðið að vegið sé að lýðræðislegu ferli með ofbeldi. Kosningabaráttan heldur áfram á morgun og kosið verður til þings eins og ákveðið hefur verið á fimmtudaginn.

Svar okkar verður sama og ávallt áður þegar vegið hefur verið að okkur með ofbeldi. Við verðum að þétta raðirnar. Við verðum að sameinast um átakið og sameiginlega munum við snúast gegn og sigra óvini okkar.“

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …