Home / Fréttir / The New York Times krefst þess að Biden hætti við forsetabramboðið

The New York Times krefst þess að Biden hætti við forsetabramboðið

Margir hafa orðið til þess að hvetja Joe Biden Bandaríkjaforseta til að draga sig í hlé eftir hörmulega útreið hans í sjónvarpskappræðum við Donald Trump, forsetaframbjóðanda republikana, að kvöldi fimmtudagsins 27. júní.

Það vakti heimsathygli að daginn eftir kappræðurnar hvatti leiðarahópur (e. editorial board) The New York Times Biden til að hætta kosningabaráttunni og víkja fyrir nýjum frambjóðanda.

Blaðið segir sjálft að í leiðarahópnum sitji blaðamenn sem riti skoðanamyndandi greinar í blaðið og þeir njóti aðstoðar sérfræðinga og rannsakenda auk þess að styðjast við umræður og ákveðin gamalgróin gildi. Tekið er fram að skil séu á milli hópsins og fréttadeilda blaðsins.

Hér birtist þessi leiðari í lauslegri þýðingu. Þess skal getið að þeir sem telja sig hafa vitneskju um innviði Demókrataflokksins segja að Joe Biden láti ekki fjölmiðla stjórna sér heldur sé líklegt að eiginkona hans, Jill, og Val, systir hans, ráði mestu um framhaldið. Biden segist ætla að berjast áfram. Sagt er að hann verði að taka endanlega ákvörðun fimmtudaginn 4. júlí, þjóðhátíðardag Bandaríkjanna.

Til að þjóna landi sínu ætti Biden forseti að draga sig í hlé

Leiðari The New York Times dags. 28. júní 2024 á vefsíðu blaðsins.

Biden forseti hefur hvað eftir annað og með réttu sagt að í forsetakosningunum í nóvember sé ekkert minna í húfi en framtíð bandarísks lýðræðis.

Sannast hefur að sjálfur er Donald Trump töluvert hættulegur þessu lýðræði – hann er mistækur og sjálfselskur og á traust almennings ekki skilið. Hann reyndi skipulega að grafa undan tiltrú til kosninga. Stuðningsmenn hans hafa lýst opinberlega stefnu sem hrundið yrði í framkvæmd 2025 og veitti honum vald til að framkvæma það sem er öfgafyllst í loforðum hans og hótunum. Komist hann að nýju til valda hefur hann heitið því að verða annars konar forseti, hann myndi ekki lúta þeim valdmörkum sem eru innbyggð í bandaríska stjórnmálakerfið.

Biden segist vera sá frambjóðandi sem líklegastur sé til að glíma til sigurs við þessa hættu á harðstjórn. Helsta röksemd hans er að hann hafi sigrað Trump árið 2020. Þau rök duga ekki lengur fyrir þeirri skoðun að Biden eigi að vera frambjóðandi demókrata nú í ár.

Í kappræðunum á fimmtudaginn [27. júní] varð forsetinn að sannfæra bandarískan almenning um að hann væri fær um að standast þær gífurlegu kröfur sem gerðar eru til þess sem skipar embættið sem hann býður sig fram til að gegna annað kjörtímabil. Ekki er hins vegar unnt að búast við því að kjósendur hafi að engu sem við blasti: Þetta er ekki sá Biden sem bauð sig fram fyrir fjórum árum.

Að kvöldi fimmtudagsins birtist forsetinn sem skuggi af miklum þjóni þjóðar sinnar. Hann átti í erfiðleikum með að útskýra hverju hann ætlaði að ná fram á seinna kjörtímabilinu. Hann átti í erfiðleikum með að svara ögrandi málflutningi Trumps. Hann átti í erfiðleikum með að reka lygar Trumps ofan í sig, benda á mistök hans og hrollvekjandi áform hans. Oftar en einu sinni átti hann í erfiðleikum með að halda þræði til loka setningar.

Biden hefur verið aðdáunarverður forseti. Þjóðin hefur blómstrað undir forystu hans og hún hefur snúið sér að því að leysa margvísleg langtímaverkefni og sárin sem rekja má til Trumps eru tekin að gróa. Það besta sem Biden getur hins vegar gert fyrir þjóð sína á þessari stundu er að lýsa yfir að hann sé hættur við að keppa að endurkjöri.

Eins og málum er nú háttað tekur forsetinn fifldjarfa áhættu. Fyrir hendi eru forystumenn meðal demókrata sem eru betur til þess fallnir að bjóða skýran, sannfærandi og kröftugan annan kost en þann að Trump verði forseti öðru sinni. Það er engin ástæða fyrir flokkinn að stefna stöðugleika og öryggi landsins í hættu með því að neyða kjósendur til að velja á milli þess hvort þeir vilji gallaðan Trump eða gallaðan Biden. Það er of mikið í húfi til að veðja á vonina um að Bandaríkjamenn horfi fram hjá eða hafi að engu aldur og hrumleika Bidens sem þeir sjá þó með sínum eigin augum.

Standi baráttan að lokum um val á milli Trumps og Bidens myndu þeir sem þetta skrifa standa afdráttarlaust með sitjandi forseta. Hættan sem stafar af Trump er svona mikil. Það er þó einmitt vegna þeirrar hættu, þess sem er í húfi fyrir landið og brostinnar getu Bidens sem Bandaríkin þarfnast sterkari andstæðings gegn þeim sem verður væntanlega tilnefndur af repúblikönum. Það er ekki léttvæg ákvörðun að kalla fram nýjan frambjóðanda demókrata þegar kosningabaráttan er komin þetta langt. Krafan um hana sýnir hins vegar af hve miklum þunga og alvöru Trump sækir gegn gildum og stofnunum þessa lands og hve lítils Biden má sín gegn þessari sókn.

Það er andstætt öllu sem einkennir persónu- og stjórnmálaferil Bidens að hann hætti við framboð sitt. Hann hefur áður sigrast á sorg og áföllum og telur sig greinilega enn geta það. Stuðningsmenn forsetans eru þegar teknir til við að gera lítið úr kappræðunum á fimmtudaginn með því að segja þær aðeins eitt atvik í samanburði við þrjú árangursrík ár. Það er þó ekki unnt að afskrifa framgöngu forsetans með þeim orðum að hann hafi verið illa fyrir kallaður þetta kvöld, líklega kvefaður, vegna þess að hún staðfesti áhyggjur sem hafa vaxið mánuðum og jafnvel árum saman. Biden gat ekki einu sinni komið orðum að því sem hann vildi segja til að skýra eigin stefnu. Það sem gerðist er ekki unnt að meta í ljósi opinberrar framgöngu forsetans í önnur skipti þar sem hann birtist sjaldan opinberlega og ávallt að loknum nákvæmum undirbúningi.

Hafa verður í huga að það var Biden sem skoraði á Trump í þetta einvígi. Hann réð reglunum og krafðist þess að þeir hittust mánuðum fyrr en nokkru sinni áður vegna almennra kosninga. Hann áttaði sig á nauðsyn þess að hann brygðist við langvinnum áhyggjum almennings af andlegri skerpu hans og hann yrði að gera það eins fljótt og verða mætti.

Biden verður nú að horfast í augu við að hann féll á eigin bragði.

Í könnunum og samtölum segjast kjósendur leita að nýjum röddum til að takast á við Trump. Biden og stuðningsmenn hans geta huggað sig við að enn sé tími til að fylkja sér að baki öðrum frambjóðanda. Bandaríkjamenn eru vanir því að forsetakosningabarátta standi í mörg ár en í mörgum lýðræðisríkjum tíðkast hins vegar að baráttan standi í fáeina mánuði.

Það líkist harmleik að repúblikanar sjálfir líti ekki dýpra í eigin barm eftir kappræðurnar á fimmtudag. Frammistaða Trumps sjálfs ætti að dæma hann úr leik. Hann laug purkunarlaust og hvað eftir annað um eigin störf, árangur sinn sem forseta og andstæðings síns. Hann lýsti áætlunum sem myndu skaða efnahag Bandaríkjanna, grafa undan frelsi borgaranna og spilla samskiptum við aðrar þjóðir. Hann neitaði að lofa því að hann myndi sætta sig við ósigur og hóf þess í stað að tala á svipaðan hátt og þegar hvatt var til árásarinnar á Bandaríkjaþing 6. janúar.

Trump hefur einfaldlega tekið Repúblikanaflokkinn í þjónustu stórmennskudrauma sinna. Það hvílir á herðum Demókrataflokksins að lyfta þjóðarha yfir framadrauma eins manns.

Demókratar sem hafa svarið Biden hollustu verða nú að öðlast hugrekki til að tala hreint út við leiðtoga flokksins. Trúnaðarmenn og aðstoðarmenn sem hafa hvatt til framboðs forsetans og sem hafa verndað hann frá því að koma fram opinberlega án óskipulagðra atvika ættu að viðurkenna hve staða Bidens hefur skaddast og hve ólíklegt er að úr henni megi bæta.

Biden svaraði mikilvægri spurningu að kvöldi fimmtudagsins. Svarið féll ekki að vonum hans og stuðningsmanna hans. Sé hættan á að Trump verði forseti öðru sinni eins mikil og hann segir – og við erum honum sammála um að hættan sé gífurleg – á hann og flokkur hans aðeins einn kost til að sanna hollustu sína við þetta land.

Skýrasta leiðin fyrir demókrata til að sigra frambjóðanda sem mótast af eigin lygum er að segja bandarískum almenningi sannleikann: viðurkenna að Biden getur ekki haldið baráttu sinni áfram og hefja ferli til að velja einhvern hæfari í hans stað til að sigra Trump í nóvember.

Þetta er best fallið til að vernda þjóðarsálina – sú köllun varð til þess að Biden bauð sig fram til forseta árið 2019 – gegn illum áhrifum Trumps. Á þennan hátt getur Biden best gagnast landi sem hann hefur svo lengi þjónað af drengskap.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …