Home / Fréttir / The New Battle for the Atlantic – umsögn um bók

The New Battle for the Atlantic – umsögn um bók

 ek-tdylxyaes7ye

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

 Miklar breytingar hafa átt sér stað á undanförnum árum á öryggisumhverfi Norður – Atlantshafssvæðisins. Þar til tiltölulega nýlega leiddu fáir á Vesturlöndum hugann að öryggismálum á svæðinu enda hafði engin ógn steðjað að því í langan tíma. Því miður er svo ekki lengur. Eftir að Vladimír Pútín varð forseti Rússlands hófu stjórnvöld þar í landi að efla árásargetu heraflans á Kólaskaga í Norður-Rússlandi, við landamæri Noregs. Þar eru bækistöðvar herdeildanna sem geta sótt út á Norður-Atlantshaf.

Í fyrstu gáfu ráðamenn í aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins (NATO) þessari nýju stefnu lítinn gaum en eftir að rússneski herinn réðst inn í Úkraínu og innlimaði Krímskagann árið 2014 breyttist það.

Á leiðtogafundum NATO í Wales árið 2014 og í Varsjá árið 2016 staðfestu bandalagsríkin að þau þyrftu aftur að einbeita sér að því að fæla sinn gamla andstæðing frá ævintýramennsku og hófu að auka varnir sínar þ.á m. á Norður-Atlantshafi.

Gjörbreyttar áherslur í öryggismálum á hafsvæðinu skipta okkur Íslendinga miklu. Bæði er eyjan okkar á svæðinu miðju og svo erum við aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Þrátt fyrir þetta hafa afar litlar umræður um breytingarnar orðið meðal landsmanna. Þegar viðfangsefnið ber á góma er heildarmyndin nánast aldrei höfð í huga heldur er sjónum beint að Keflavíkurstöðinni og hvort umsvif Bandaríkjamanna og NATO séu að aukast þar. Auðvitað er eðlilegt að landsmenn hafi áhuga á hvað gerist á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli enda er það svo til eina tenging okkur við varnarviðbúnað á Norður- Atlantshafi. Fleiri ástæður eru þó án efa að baki því að landsmenn hafa afar þröngt sjónarhorn í þessum efnum. Ein er sú að uppbygging hernaðarmannvirkja á sér stað langt frá Íslandi og vopnin, ekki síst kafbátar sem gegna lykilhlutverki í sjóherjum nágrannalandanna, eru lítt sýnileg. Önnur ástæða er sú að upplýsingar um hvað er að gerast í öryggismálum á norðurslóðum um þessar mundir eru ekki auðfundnar hvorki fyrir Íslendinga né aðra. Því er bókin The New Battle for the Atlantic – Emerging Naval Competition with Russia in the Far North eftir Magnus Nordenman sem kom út um mitt ár 2019 mjög tímabær. Þar fjallar höfundur um varnarmál á norðanverðu Atlantshafi. Hér er Magnus á heimavelli en hann er sérfræðingur í öryggismálum í heimshlutanum. Hann vann til skamms tíma hjá hugveitunni The Atlantic Council en starfar nú fyrir fréttaveituna Defense One.

Einn helsti kosturinn við bók Magnusar er að hann horfir á öryggismál á Norður-Atlantshafi með heilstæðum hætti og setur þau í sögulegt samhengi. Bókin hefst á kynningu á staðháttum á Norður-Atlantshafi og svo fer Magnus nokkrum orðum um kosti og galla kafbáta.

Í fyrsta hluta bókarinnar er fjallað um átök á Norður-Atlantshafi á 20. öldinni og hvaða lærdóm megi draga af þeim. Sjónum er fyrst beint að fyrri heimsstyrjöldinni, síðan þeirri síðari og að lokum hinu langa kalda stríði í undirdjúpunum.

Annar hluti bókarinnar hefst eftir að kommúnisminn hrundi í Evrópu en í kjölfar þess að Sovétríkin liðu undir lok fjaraði hratt undan rússneska Norðurflotanum sem staðsettur er á Kólaskaga. Besta dæmið um hversu illa hann stóð á þessum tíma var að stolt kafbátaflotans, Kúrsk K-141, sökk árið 2000. Þegar höfuðandstæðingur flota NATO ríkjanna hvarf nánast af yfirborði sjávar var óhætt fyrir ríkin að draga saman seglin á sviði sjóvarna og finna önnur verkefni fyrir sjóherina.

Þriðji og síðasti bókarhlutinn hefst síðan á frásögn af því hvernig rússneski flotinn reis úr öskustónni í byrjun 21. aldarinnar. Þó hafa verði í huga að flotinn glímir við ýmis vandamál og að rússneska hagkerfið ber ekki afar öflugan sjóher þá breytir það því ekki að flotinn er orðinn NATO ansi skeinuhættur andstæðingur.

Magnus Nordenman nefnir sérstaklega að stýriflaugar séu orðnar útbreiddar í skipum flotans. Þær geta valdið miklu tjóni m.a. í þeim fáu höfnum í Vestur-Evrópu sem geta tekið við hermönnum og hergögnum frá Norður-Ameríku ef svo illa færi að stríð brytist út í austurhluta álfunnar. Því er mikilvægt fyrir NATO ríkin að efla sjóvarnir sínar aftur. Að sögn Magnusar hafa ríki bandalagsins til skamms tíma alls ekki sinnt þessu verkefni nægilega vel og því er talsvert í að bandalagið nái fyrri styrk á Norður-Atlantshafi. Í lokakafla bókarinnar bendir Magnus á nokkur atriði sem NATO-ríkin þurfa að hafa í huga nú þegar þau reyna aftur að tryggja öryggi Atlantshafsins.

Af þessari stuttu kynningu á bókinni má ráða að The New Battle for the Atlantic er mjög fróðleg. Einhverjir kunna hins vegar að draga þá ályktun af efnistökum bókarinnar að hún hljóti að vera frekar leiðinleg lesning. Svo er þó ekki. Greinilegt er að Magnus skrifar bókina fyrir almenning en ekki sérfræðinga. Hún er lipurlega skrifuð og höfundur gætir þess að fylla hana ekki af smáatriðum. Þvert á móti veitir hún gott yfirlit yfir stöðu mála í öryggismálum á Norður-Atlantshafi nú um stundir og skýrir bakgrunn þeirrar samkeppni. Ég mæli því eindregið með bókinni fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér betur þennan mikilvæga málaflokk sem á án efa eftir að skipta okkur Íslendinga meira máli á næstu árum.

Hér má geta þess að Magnus Nordenman hefur þegið boð Varðbergs um að verða ræðumaður á hádegisfundi Varðbergs fimmtudaginn 27. febrúar.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …