Home / Fréttir / The Economist birtir greinaflokk um næsta stríð

The Economist birtir greinaflokk um næsta stríð

20180127_cuk400

Höfundur: Kristinn Valdimarsson 

Í nýjasta hefti vikuritsins The Economist er greinasafn um framtíð stríðsrekstrar í heiminum.  Frásögnin hefst á þeim góðu fréttum að stríð á milli ríkja hafa verið mjög fátíð síðustu hálfa öldina og stríð milli stórvelda heyra nánast sögunni til.  Borgarastyrjaldir hafa hins vegar verið frekar algengar.  Slík stríð eru oft háð í borgum en búast má við því að þær verði oftar vígvöllur í framtíðinni enda búa sífellt fleiri í þeim.  Átök um borgir kalla á annars konar hernaðartækni en notuð er á vígvöllum sem bjóða upp á meiri hreyfanleika s.s. örflygildi, litlar þyrlur og skriðdreka og einnig þarf að veita herdeildum meira frelsi til ákvarðanatöku.  

Borgarastríð verða þó ekki einu stríðin sem mannkyn þarf að óttast í framtíðinni því að mati greinahöfundar eru vaxandi líkur á því að Bandaríkjamenn lendi í stríði við Rússa eða Kínverja.  Meginástæðan fyrir því er að báðum þjóðum finnst að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til hagsmuna þeirra í núverandi alþjóðakerfi sem sett mótað var af Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra.  Kínverjar horfa til Suður-Kínahafs en Rússar hafa áhuga á að endurheimta áhrif sín í Austur-Evrópu.  Síðustu hálfa öld eða svo hafa kjarnavopn stórveldanna komið í veg fyrir átök milli þeirra, ráðamenn ríkjanna vita að stríð myndi leiða til gagnkvæmrar gjöreyðingar ( á ensku Mutually assured destruction – MAD).  Nú eru ríkin hins vegar að taka í notkun vopn sem eiga að geta eyðilagt kjarnorkuvopnabúr andstæðingsins áður en að honum gefst tækifæri til þess að bregðast við, með slíkum vopnum er grafið undan MAD.      

Styrjaldir framtíðarinnar munu taka á sig ýmsar myndir.  Sumar þeirra verða án efa háðar með hefðbundnum hætti en í öðrum verður meiri áhersla lögð á blekkingarleiki ýmiskonar t.d. með útbreiðslu falskra frétta (e. fake news) og blönduðum hernaði (e. hybrid warfare).  Mikilvægi allskyns rafeindatækni í heimi nútímans gerir það svo að verkum að reikna verður með því að þessi kerfi verði skotmörk í stríðum framtíðarinnar.  Róttækasta breytingin yrði þó án efa tilkoma vélmenna á vígvellinum.  Taka verður þann möguleika alvarlega en ekkert er þó sjálfgefið í þeim efnum enda hryllir mörgum við þeirri tilhugsun og ýmsir krefjast þess að komið verði í veg fyrir að það gerist sem um þessar mundir á aðeins heima í vísindaskáldsögum.  

Að mati greinahöfundar hefur þróun hertækni að undanförnu leitt til þess að öflugasta herveldi heims, Bandaríkin, stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum á þessu sviði.  Ekki er þó víst að yfirburðir Bandaríkjamanna séu í hættu því árið 2014 ýtti bandaríska varnarmálaráðuneytið úr vör áætlun sem kallast hinu óþjála nafni The Third Offset.  Hér er vísað í það að á tímabilinu sem Bandaríkin hafa verið leiðandi herveldi, þ.e. frá lokum seinni heimsstyrjaldar, hafa þau í tvígang staðið fyrir tæknibyltingu í hernaði sem hefur gert þeim kleift að viðhalda yfirburðastöðu sinni á þessu sviði.  Fyrsta byltingin átti sér stað á sjötta áratugnum þegar Bandaríkjamenn þróuðu kjarnorkueldflaugar til þess að vega upp á móti hefðbundnum herafla Varsjárbandalagsins sem var mun fjölmennari en herir ríkja Atlantshafs­bandalagsins.  Næsta bylting átti sér stað á níunda áratugnum þegar kjarnorkuherafli Sovétmanna var orðinn jafn öflugur og sá bandaríski en Bandaríkjamenn brugðust við því með því að þróa nákvæmnisvopn svo að stöðva mætti innrás Varsjárbandalagsins í Vestur-Evrópu án þess að grípa þyrfti til kjarnorkuvopna. 

Nú ætla Bandaríkjamenn að veðja á sjálfstýrð vopna- og varnarkerfi og ýmis hátæknihergögn svo sem eins og nýja torséða sprengjuvél af  B-21-gerð og nýja gerð kjarnorkukafbáta sem eiga m.a. að brjótast í varnarkerfum  Rússa og Kínverja. Bandaríkjastjórn nær ekki þessu markmiði án uppstokkunar á varnarmálaráðuneytinu og kerfisgöllum innan þess, til dæmis með markvissari innkaupum og stuðningi við rannsóknir og þróun. Hvort sem Bandaríkjamönnum tekst að ná hernaðarlegu forskoti gagnvart keppinautum sínum eða ekki telja sérfræðingar að þeir haldi því ekki jafn lengi og eftir fyrri byltingarnar tvær.  Af greinasafninu má því ráða að það sé því miður ekki líklegt að veröldin sé að verða friðvænlegri í bráð og því verða öryggisbandalög líkt og Atlantshafsbandalagið að halda vöku sinni.     

 

 
 

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …