
Þrjár gerðir eru til af skriðdrekum: léttir, milliþungir og þungir. Úkraínsk stjórnvöld hafa lengi lagt hart að frönskum og þýskum stjórnvöldum með óskum um að þau létu af hendi skriðdreka gegn Rússum. Hefur þeim óskum verið tekið þurrlega til þessa.
Þjóðverjar hafa sagt að afhending slíkra vopna bryti gegn samkomulagi milli NATO-ríkjanna um að senda ekki svo háþróuð vestræn árásarvopn til Úkraínu. Hafi slíkt samkomulag verið fyrir hendi ákvað Emmanuel Macron Frakklandsforseti að rjúfa það miðvikudaginn 4. janúar þegar hann lofaði að senda milliþunga skriðdreka af gerðinni AMX 10 rc til Úkraínu.
Þetta kemur fram í færslu sem Volodymyr Zelenskíj setti á Twitter eftir símtal við Macron 4. janúar. „Þakka, þér vinur,“ segir Zelemskíj í kveðju til Macrons sem lofaði jafnframt að hvetja forystumenn annarra ríkja til að senda sambærilega eða öflugri vígdreka til Úkraínu.
Þetta er í fyrsta sinn síðan Rússar réðust inn í Úkraínu sem bandamenn Úkraínumanna hafa látið þeim í té brynvarin og þungvopnuð ökutæki smíðuð á Vesturlöndum. Þeir hafa áður fengið senda að vestan gamla sovéska skriðdreka, leifar frá aðild ríkja í austurhluta Evrópu að Varsjárbandalagi Sovétmanna fyrir 30 árum.
Nú um áramótin ræddi sjónvarpsmaður ABC News við Kyrylo Budanov, yfirmann njósnastofnunar hers Úkraínu, sem sagðist vænta þess að Bandaríkjamenn létu hernum í té milliþunga bandaríska Bradley skriðdreka. Þegar fréttin birtist höfðu Bandaríkjamenn ekki sjálfir sagt frá þessum áformum. Joe Biden var síðan spurður síðdegis miðvikudaginn 4. janúar hvort það væri rétt að hann velti fyrir sér að senda Bradley dreka til Úkraínu. Hann svaraði „já“ án þess að útlista það frekar.
Úkraínumönnum er ekki síst kappsmál að fá þunga skriðdreka til að sækja gegn Rússum, fyrst og fremst bandaríska Abrams skriðdreka og þýska skriðdreka af gerðinni Leopard A2.
Úkraínumenn hafa skammað Þjóðverja fyrir að hafa ekki viljað láta sér í té þunga Leopard skriðdreka og milliþunga Marder skriðdreka. Eins og áður sagði hefur svar Þjóðverja til þessa verið að þeir megi það ekki vegna samkomulags innan NATO.
Þingmaður Frjálsra demókrata (FDP) Marie-Agnes Strack-Zimmermann, formaður varnarmálanefndar þýska þingsins, hvatti Olof Scholz Þýskalandskanslara fimmtudaginn 5. janúar til að endurskoða afstöðu sína til stuðnings við Úkraínumenn.
Kanslaranum dygði ekki lengur að afsaka sig með því að Þjóðverjar gætu ekki veitt skriðdreka aðstoð einir. „Frakkar taka nú enn einu sinni að sér hlutverkið sem vænst var að Þjóðverjar gegndu, og þeir stíga einir fram,“ sagði hún við AFP-fréttastofuna.
Óljóst er hvaða gerð af Bradley drekanum Bandaríkjamenn ætla að senda til Úkraínu. Hann er til í mörgum útgáfum. Grunngerðin er milliþungur belta skriðdreki með 25 mm fallbyssu, einnig er unnt að koma þar fyrir TOW skriðdrekavarnarflaug til að granda skriðdrekum.
AMX-10 rc er á hjólum en ekki beltum. Hann getur borið 105 mm fallbyssu, stærri en er á mörgum eldri, þungum skriðdrekum. Þessi franski dreki er svo snar í snúningum að franska forsetaskrifstofan lýsir honum sem „léttum skriðdreka“.
Í fjölmiðlum segja herfróðir sérfræðingar að ekki líði á löngu þar til fullbúnir skriðdrekar með öllu sínu afli verði sendir úr vestri til Úkraínu. Þá verði orrustuflugvélar líklega einnig sendar þangað.