Home / Fréttir / Það glittir í hótun Pútins um beitingu kjarnorkuvopna

Það glittir í hótun Pútins um beitingu kjarnorkuvopna

Vladimir Pútin boðer innrásina í Úkraínu 24. febrúar 2022.

Roger Cohen er gamalreyndur blaðamaður og dálkahöfundur The New York Times. Hann skrifar fimmtudaginn 24. febrúar eftir innrás Pútins í Úkraínu:

Vladimir Pútin hefur sent rússneska hermenn inn í Úkraínu en tekið skýrt fram að hann stefnir ekki aðeins gegn nágrannaríki sínu heldur einnig gegn ameríska „lygaheimsveldinu“ og hann hótaði „hverjum sem reynir að bregða fæti fyrir okkur … afleiðingum sem menn hafa aldrei áður kynnst í sögu sinni“.

Í sundurlausri ræðu hans aðfaranótt fimmtudags var mikið af sárum sagnfræðilegum umkvörtunum og ásökunum um stöðug vestræn samsæri gegn landi hans. Í ræðunni minnti Pútin umheiminn einnig á að Rússland „er eitt af öflugustu kjarnorkuveldunum“ og Rússar stæðu „framar öðrum með ýmsum háþróuðum vopnum“.

Í raun má segja að í ræðu Pútins sem flutt var til að réttlæta innrásina sé ýjað að kjarnorkustríði.

Þegar Pútin ræddi kjarnorkuvopn Rússa sagði hann: „Enginn vafi skal ríkja um að við hugsanlegum árásaraðila blasir ósigur og ógnvænlegar afleiðingar ráðist hann beint á land okkar“.

Biden forseti segir Pútin hafa „hafið þaulhugsað stríð sem leiðir til hörmulegs mannfalls og mannlegra hörmunga“ en tekur jafnframt fram að engir bandarískir hermenn verði sendir til Úkraínu. Evrópuríkin hafa tekið sömu afstöðu.

„Við höfum sagt skýrt að við höfum hvorki áætlanir né áform um að senda NATO-herafla til Úkraínu,“ sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, fimmtudaginn (24. febrúar).

Sagan sýnir samt að evrópsk stríð með þátttöku mikilvægs heimsveldis geta tekið stjórnlausa stefnu.

Pútin tekur mikla áhættu með her sínum, meiri en nokkru sinni fyrr, þegar hann ræðst á land sem er stærra en Frakkland og með 44 milljón íbúa. Það er auðvelt að hefja stríð, miklu erfiðara að ljúka þeim. Efnahagsþvinganir Vestursins, sem þegar hefur verið hrundið í framkvæmd, verða þungbærar og við því má búast að Úkraínumenn muni lengi veita Rússum andspyrnu með skæruhernaði.

Að loknu stuttu stríði í Georgíu árið 2008, innlimun Krímskaga árið 2014, skipulagningu árið 2014 á hernaði í austurhluta Úkraínu sem gat af sér tvö aðskilnaðarsvæði og hernaðarlegri íhlutun í Sýrlandi árið 2015 hefur Pútin greinilega komist að þeirri niðurstöðu ákvarðanir hans um að beita herafla til að ná strategískum markmiðum sínum kalli ekki á neinar gagnaðgerðir frá Bandaríkjunum eða evrópskum bandamönnum þeirra.

„Rússar vilja öryggisleysi í Evrópu því að vald er tromp þeirra,“ sagði Michel Duclos, fyrrverandi sendiherra Frakka. „Þeir hafa aldrei viljað nýskipan öryggismála hvað sem Evrópumenn gera sér í hugarlund. Fyrir dágóðum tíma ákvað Pútin að besti kostur sinn væri að eiga í útistöðum við Vestrið.“

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …