Home / Fréttir / Telja þýsku stjórnina ólögmæta – grunaðir um að undirbúa valdarán

Telja þýsku stjórnina ólögmæta – grunaðir um að undirbúa valdarán

Þúsundir þýskra lögreglumanna tóku þátt í húsleitum og annars konar aðgerðum víða um Þýskaland að morgni miðvikudags 7. desember vegna grunsemda um að öfga-hægrimenn ætluðu að beita vopnavaldi til sölsa undir sig stjórn landsins.

Fullyrt er að hópurinn sem liggur undir grun hafi ætlað að gera aldraðan þýskan aðalsmann að nýjum leiðtoga þjóðarinnar og hafi þeir sem stóðu að launráðunum sett sig í samband við rússneska embættismenn vegna áforma sinna.

Rússneska sendiráðið í Berlín segist ekki hafa nein tengsl við hryðjuverkahópa eða ólögleg samtök í Þýskalandi.

Þýski sambandssaksóknarinn sagði að um 3.000 lögreglumenn hefðu leitað á 130 stöðum í 11 af 16 sambandslöndum Þýskalands. Undir smásjánni voru svonefndir Reichsbürger sem halda því fram að Þýska sambandslýðveldið eigi engan rétt á sér, líta verði aftur til Weimar-lýðveldisins sem kom til sögunnar árið 1919 og endurreisa það. Þetta gerist ekki nema núverandi stjórn Þýskalands sé steypt af stóli, hún sæki upphaf sitt til hernámsveldanna Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands sem lögðu grunninn að Þýska sambandslýðveldinu eftir aðra heimsstyrjöldina, á fimmta áratugnum.,

Þýski dómsmálaráðherrann, Marco Buschmann, sagði þetta „and-hryðjuverka aðgerð“, þeir sem lægju undir grun kynnu að hafa skipulagt vopnaðar árásir á stofnanir ríkisins.

Saksóknarar sögðu að 22 þýskir ríkisborgarar hefðu verið handteknir vegna gruns um að þeir væru „félagar í hryðjuverkasamtökum“. Auk þess væru þrír einstaklingar grunaðir um að styðja samtökin, þeirra á meðal rússneskur ríkisborgari.

Vikuritið Der Spiegel sagði að meðal annars hefði verið leitað í bækistöðvum þýskra sérsveitarmanna, KSK, í bænum Calw í Baden-Württemberg í suðvestur Þýskalandi. Saksóknarar hafa ekki staðfest þessa frétt.

Þá kom fram að einn hefði verið tekinn fastur í Kitzbühl í Austurríki og annar í Perugia á Ítalíu.

Þýski yfirsaksóknarinn segir að þeir sem hafa verið teknir fastir séu grunaðir um að hafa stofnað „hryðjuverkasamtök með það að markmiði að kollvarpa núverandi stjórnskipan Þýskalands og koma á eigin stjórnarháttum sem þeir hafi þegar hafist handa við að móta“.

Jafnframt sé þeim grunuðu ljóst að þeir næðu ekki markmiði sínu án þess að beita hervaldi.

Þeir eru taldir hafa lagt trúnað á „samsafn samsæriskenninga sem eru reistar á málflutningi svonefndra Reichsbürger og hugmyndafræði sem kennd er við QAnon“ að sögn saksóknara. Þá segir einnig að félagar í hópnum álíti að svonefnda „djúp-ríkið“ stjórni Þýskalandi. Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, flíkaði sambærilegum hugarórum um Bandaríkin á sínum tíma.

Þýsk yfirvöld hafa tilgreint tvo hugsanlega stjórnendur hópsins að sögn Der Spiegel, annar er þjóðkunnur 71 árs minniháttar þýskur aðalsmaður, Heinrich XIII., hinn er 69 ára fyrrverandi fallhlífarhermaður.

Í opinberri tilkynningu þýska saksóknarans segir að hópurinn hafi ætlað að gera Heinrich XIII. að leiðtoga Þýskalands. Hann hafi sett sig í samband við rússneska embættismenn í þeim tilgangi ræða um nýja skipan mála í landinu eftir að núverandi ríkisstjórn Þýskalands hefði verið rekin frá völdum. Rússnesk kona hafi aðstoðað hann við að koma á þessum tengslum.

„Rannsóknir til þessa benda hins vegar ekki til þess að þeir sem haft var samband við hafi brugðist á jákvæðan hátt við tilmælunum,“ segir í tilkynningunni.

Reichsbürger samtökin drógu að sér athygli með mótmælum gegn COVID-19 aðgerðum þýskra stjórnvalda. Félagar í samtökunum sættu sig ekki við fyrirmæli um sóttvarnir sem þeir töldu gefin af umboðslausum ómarktækum stjórnvöldum.

Heimild: Euronews

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …