Home / Fréttir / Telenor hafnar Huawei við 5G-væðingu sína

Telenor hafnar Huawei við 5G-væðingu sína

0758a347e811eb72f82352f58b1dd6aa26bb2f7c9a2d859b86137ed70055a1d4

Norska símafyrirtækið Telenor tilkynnti föstudaginn 13. desember að það hefði ákveðið að kaupa 5G-símnetbúnað af sænska fyrirtækinu Ericsson og hafna þar með viðskiptum við kínverska risafyrirtækið Huawei sem sér Telenor nú fyrir 4G búnaði.

Norska leyniþjónustan hafði sent frá sér viðvörun um að Huawei stæði of nærri kínverskum stjórnvöldum til að viðskipti við fyrirtækið væru skynsamleg. Bandaríkjastjórn hefur bent á þetta sama í viðvörunum sínum gegn viðskiptum við Huawei. Óttast er að nýta megi 5G búnað frá Huawei til einhvers konar njósna.

Sigve Brekke, forstjóri Telenor, sagði að við val á seljanda 5G búnaðarins hefði verið litið til mikilvægra þátta eins og tæknilegra gæða, hæfni til nýsköpunar og endurnýjunar kerfisins, viðskiptakjör og skilyrði fyrir utan víðtæka athugun á öryggiskröfum.

Að öllu þessu athuguðu hefði niðurstaðan orðið að leita til nýs samstarfsaðila við innleiðingu þessarar nýju tækni í Noregi.

Telenor segir að það taki fjögur til fimm ár að innleiða 5G í Noregi. Á innleiðingartímanum muni fyrirtækið halda áfram að nýta 4G tækni frá Huawei og einnig fara upp í 5G með Huawei á einstaka svæðum.

Telenor er með meira en 180 milljón farsímaáskrifendur í norðurhluta Evrópu og suðaustur hluta Asíu.

Sænska fyrirtækið Telia ákvað í október að velja frekar Ericsson en Huawei við 5G-væðingu sína.

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …