Þing Kristilega demókrataflokksins (CDU) í Þýskalandi samþykkti laugardaginn 23. nóvember með miklum meirihluta að þýska sambandsþingið ræddi og tæki afstöðu til þess hvort umdeilda kínverska hátæknifyrirtækið Huawei kæmi að innleiðingu 5G netsins í Þýskalandi.
Samþykktin gengur þvert á stefnu Angelu Merkel, kanslara og leiðtoga flokksins til margra ára, sem mælti með því að það yrði ákveðið með útboði á markaði hver kæmi að þessu viðamikla verkefni án þess að Huawei yrði bannað að vera meðal tilboðsgjafa.
Bandaríkjastjórn vill að Huawei sé á svörtum lista. Bent er á grunsamleg tengsl fyrirtækisins við kínversk stjórnvöld. Hefur Bandaríkjastjórn hvatt lýðræðisríki til að fara að fordæmi sínu og hafa sum þeirra gert það.
Meðal forystumanna CDU er óánægja með stefnu Merkel gagnvart Huawei. Norbert Röttgen, fyrrv. ráðherra, og Paul Ziemiak, framkvæmdastjóri flokksins, eru algjörlega andvígir þátttöku Huawei í innleiðingu á 5G í Þýskalandi og sama gildir að þeirra mati um önnur fyrirtæki sem hafi óeðlileg tengsl við ríkisvald annarra landa.
„Ekkert kínverskt fyrirtæki er sjálfstætt fyrirtæki,“ sagði Röttgen. Hann sagði að þátttaka Huawei snerti beint „brýna þjóðaröryggishagsmuni“.
Fáeinum dögum fyrir þing CDU í Leipzig birtu níu sérfræðingar í utanríkis- og öryggismálum tengdir Jafnaðarmannaflokknum (SPD), samstarfsflokki CDU í ríkisstjórn, skýrslu þar sem þeir hvöttu til útilokunar á „ótrúverðugum framleiðendum, einkum ef ekki væri unnt að tryggja sig gegn inngripi, brögðum og njósnum aðila utan stjórnskipulegs aðhalds“.
Flokkur græningja sem nú mælist næstum með jafnmikið fylgi og CDU í könnunum er alfarið á móti aðild Huawei að 5G-væðingu Þýskalands.
Í frétt DW segir að svo kunni að fara að stjórnarandstæðingar á sambandsþinginu í Berlín og þingmenn úr stjórnarflokkunum myndi meirihluta gegn heimild Huawei til að gera tilboð hvað sem afstöðu Angelu Merkel líður.
Í frétt DW segir að Þjóðverjar búi almennt við verra starfrænt samskiptakerfi en nágrannar þeirra í Evrópu og þess vegna sé 5G-verkefnið eitt af lykilstefnumálum CDU til að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar.
Það var Annegret Kramp-Karrenbauer, arftaki Merkel á CDU-formannsstólnum, sem beitti sér fyrir málamiðlun í 5G-málinu með því að taka ákvörðun um framkvæmdina úr höndum framkvæmdavaldsins.
Aðeins fáeinir fulltrúar á landsþinginu greiddu atkvæði gegn málamiðluninni.
„Við munum skilgreina öryggiskröfurnar og sjá til þess að eftir þeim verði farið,“ sagði Kramp-Karrenbauer við RTL-útvarpsstöðina fimmtudaginn 21. nóvember eftir að málamiðlunartillagan var birt.