Home / Fréttir / Teheran: Talið að írönsk flaug hafi grandað farþegaflugvél

Teheran: Talið að írönsk flaug hafi grandað farþegaflugvél

 

df9a8192814fd8cb606e2391998629a9c3d21cea
Frá slysstað við Teheran.

Bandarískir embættismenn telja „mjög líklegt“ að úkraínska þotan sem fórst við Teheran í Íran aðfaranótt miðvikudags 8. janúar hafi verið skotin niður af írönskum loftvarnaflaugum. Niðurstaðan er reist á athugun á gervihnattarmyndum. Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði að kvöldi fimmtudags 9.  janúar að flugskeyti hefði grandað farþegaþotunni.

Donald Trump Bandaríkjaforseti var spurður um flugslysið fimmtudaginn 9. janúar og sagði: „Það er sorglegt þegar ég sé þetta. Sorglegt. Einhverjum kann að hafa orðið á mistök hjá hinum aðilanum … Ekki okkar kerfi. Nei. Þetta snertir okkur ekki neitt.“

Yfirvöld í Úkraínu sögðu fimmtudaginn 9. janúar að þau veltu öllum steinum í rannsókn sinni á flugslysi skammt frá flugvellinum í Teheran í Íran aðfaranótt miðvikudags 8. janúar skömmu eftir að Íranir skutu flaugum á bandarískar herstöðvar í Írak. Um var að ræða Boeing 737 þotu í eigu flugfélags í Úkraínu og var hún á leið frá Teheran til Kíev.

Alls voru 176 manns um borð í vélinni og fórust þeir allir. Meðal farþega voru 82 Íranir, 63 Kanadamenn, 10 Svíar, 11 Úkraínumenn, fjórir Afganir, þrír Þjóðverjar og þrír Bretar.

Ali Abedzadeh, borgaralegur flugmálastjóri Írans, sagði að haft yrði samstarf við Úkraínumenn en svörtu kassarnir úr vélinni yrðu ekki sendir til Bandaríkjanna enda hefðu Íranir ekkert stjórnmálasamband við þau og hefðu ekki haft í fjóra áratugi.

Írönsk yfirvöld segja að flugvélin hefði upphaflega haldið í vestur frá flugvellinum, sveigt til hægri vegna óvænts atviks og verið á leið til flugvallarins þegar hún hrapaði.

„Vélin hvarf af ratsjá þegar hún náði 8.000 fetum (2.400 metrum). Flugmaðurinn sendi engin fjarboð um óvenjulegar aðstæður,“ sagði í tilkynningu á vefsíðu borgaralegra flugmálayfirvalda Írans síðdegis miðvikudaginn 8. janúar. Þau sögðu einnig: „Sjónarvottar segjast hafa séð eld um borð í vélinni sem magnaðist.“

Alls komu 45 rannsakendur frá Úkraínu til Teheran fimmtudaginn 9. janúar. Þeir fóru fram á að skoða flak vélarinnar og allt annað á slysstaðnum í von um að geta upplýst hvers vegna vélin fórst. Þeir útiloka hvorki flugskeytaárás né hryðjuverk. Í upphaflegri tilkynningu á vefsíðu sendiráðs Úkraínu í Teheran var talið að vélarbilun hefði valdið slysinu en síðan voru þau orð felld á brott.

Rannsakendurnir frá Úkraínu vilja rannsaka allt sem finnst á slysstaðnum og kanna hvort þar megi finna leifar af rússneskri skotflaug. Í hópi rannsakendanna frá Úkraínu eru sérfræðingar sem rannsökuðu flakið af MH17, farþegaþotu frá Malaysian Airlines, sem var grandað yfir Úkraínu af rússneskri skotflaug sumarið 2014 en þá fórust 298 mann sem voru um borð í vélinni á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur.

Volodymyr Zelenskiy, forseti Úkraínu, hvetur almenning til að láta ekki glepjast af vangaveltum og samsæriskenningum um örlög flugvélarinnar um leið og hann áréttar nauðsyn nákvæmrar rannsóknar. „Við komumst örugglega að sannleikanum,“ sagði forsetinn fimmtudaginn 9. janúar og lýsti þjóðarsorg í Úkraínu þann dag.

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …