Home / Fréttir / Taugaeitri beitt gegn rússnesku Skripal-feðginunum

Taugaeitri beitt gegn rússnesku Skripal-feðginunum

 

Feðginin Sergei Skripal og Julia.
Feðginin Sergei Skripal og Julia.

Taugaeitur er talið hafa verið notað gegn Sergei Skripal, fyrrv. rússneskum njósnara, og Juliu, dóttur hans, að mati bresku lögreglunnar. Þau fundust á bekk í almenningsgarði í Salisbury í Suður-Englandi og liggja nú  milli heims og helju í sjúkrahúsi. Eitrið er mjög sjaldgæft og ýtir það undir grunsemdir um að rússnesk stjórnvöld standi að baki árásinni.

Breska lögreglan sagði miðvikudaginn 7. mars að hún rannsakaði málið sem „morðtilraun“. Frekari upplýsinga er ekki að vænta frá lögreglunni að sinni. Einn lögreglumaður sem kom að því að bjarga feðginunum af bekknum í almenningsgarðinum er einnig undir læknishendi vegna eitrunar.

Amber Rudd, innanríkisráðherra Breta, sagði að fara yrði að öllu með gát við öflun og mat á sönnunargögnum. Stjórnvöld yrðu að hafa fast land undir fótum með vísan til nauðsynlegra gagna áður en frekari ákvarðanir yrðu teknar. Það yrði ekki hrapað að neinni niðurstöðu.

Sergei Skripal starfaði í njósnastofnun rússneska hersins, GRU, þegar hann gekk til liðs við Breta og veitti þeim upplýsingar um rússneska njósnara í Evrópu. Hann var tekinn fastur og dæmdur í 13 ára fangelsi í Rússlandi árið 2006 en sleppt til Bretlands árið 2010 í skiptum á njósnurum. Rússar hafna öllum getgátum um að þeir hafi beitt taugaeitri gegn Skripal og dóttur hans.

Þau voru á pizza-stað í miðborg Salisbury sunnudaginn 4. mars og litu einnig inn á krá áður en þau fundust ósjálfbjarga. Biður lögregla alla sem sáu til ferða þeirra að gefa sig fram.

Í The Times segir að breska lögreglan rannsaki einnig dauða eiginkonu Skripals og sonar hans. Hún dó úr krabbameini árið 2012 en hann úr lifrarveiki í St. Pétursborg í fyrra.

Í Moskvu saka menn vestræna fjölmiðla um að blása upp Rússagrýlu vegna málsins og segja stjórnmálamenn vilja nota það til að spilla samskiptum Rússa og Breta.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …