Home / Fréttir / Tartari frá Krím verður varnarmálaráðherra Úkraínu

Tartari frá Krím verður varnarmálaráðherra Úkraínu

Rustem Umerov tilnefndur varnarmálaráðherra Úkraínu.

Rustem Umerov (41 árs), tartari frá Krímskaga, verður nýr varnarmálaráðherra Úkraínu ef þing landsins samþykkir skipun hans eftir að Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti vék Oleksii Reznikov til hliðar úr embættinu.

Fréttaskýrendur segja að líta megi á það sem ögrun við yfirráð Rússa á Krímskaga að Zelenskíj tilnefni mann af skaganum í þetta lykilembætti. Það ýti undir líkur á að Úkraínustjórn vilji endurheimta skagann með valdi undan hernámsliði Rússa sem þar hefur setið frá árinu 2014.

Umerov fæddist þó ekki á Krímskaga heldur í Úzbekistan. Stalín flutti tartara nauðuga til Mið-Asíu frá Krím árið 1944. Þeir gátu hins vegar snúið aftur til skagans eftir hrun Sovétríkjanna og Umerov ólst upp þar.

Hann hefur síðan lagt mikla rækt við land forfeðra sinna. Hann var kjörinn á þing Úkraínu, Rada, árið 2019 á lista stjórnarandstöðuflokksins, Golos. Hann var annar forseta Krímvettvangsins sem Zelenskíj stofnaði til að samræma aðgerðir á alþjóðavettvangi til að hnekkja innlimun Krím í Rússland árið 2014.

Tartarar eru 12 til 15% íbúa á Krímskaga og létu þeir að mestu hjá líða að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu Rússa til að fá blessun Krímarbúa á innlimuninni.

Rustem Umerov hefur próf frá Stjórnunarakademíunni í Kyív og hóf starfsferil sinn árið 2004 í síma- og fjarskiptastarfsemi. Síðan stofnaði hann eigin fjárfestingarsjóð og stjórnaði honum frá 2013 til 2019. Hann hóf stjórnmálaferil sinn árið 2019 eins og áður sagði og árið 2022 varð hann forstjóri Eignasjóðs ríkisins. Það er lykilstaða vegna einkavæðingar ríkiseigna í landi þar sem spilling er talin mikil.

Undir hans stjórn hefur verið ráðist í mestu einkavæðingu í sögu Úkraínu. Sjóðurinn hefur í tíð Umerovs stjórnað sölu og endurreisn meira en 3.600 ríkiseigna, járnnáma og hafna auk fyrirtækja. Vegna einkavæðingarinnar og sölu til erlendra fjárfesta hefur Umerov sætt mikilli gagnrýni af hálfu auðmanna (ólígarka) og stjórnmálamanna sem hafa tapað stórfé og spón úr aski sínum. Það er örugglega ekki tilviljun að hann sé valinn til að stjórna varnarmálaráðuneytinu sem sætt hefur miklu ámæli fyrir spillingu.

Starfsferill Umerovs ber með sér að hann hefur enga beina reynslu af hermennsku eða hernaði. Frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu hefur honum verið mikið kappsmál að binda enda á átökin. Honum hefur verið falið að eiga leynileg samtöl við Rússa um viðkvæm mál eins og fangaskipti og brottnám almennra borgara. Franska blaðið Le Figaro hefur eftir heimildum að hann hafi samið um frelsi meira en 2.000 úkraínskra stríðsfanga síðan 24. febrúar 2022.

Hann var á sínum tíma í úkraínsku sendinefndinni sem samdi við Rússa undir handarjaðri Tyrkja og SÞ um að opnaðar yrðu siglingaleiðir á Svartahafi fyrir kornflutningaskip frá Úkraínu. Rússar slitu samningnum vorið 2023 en einmitt sama mánudag, 4. september, og Umerov er tilnefndur sem ráðherra er Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti í Sotsjí við Svartahaf og ræðir við Vladimir Pútín um endurnýjun kornsamninganna.

Frá því að innrásin hófst hefur Umerov einnig unnið mikið að því að tjaldabaki  að fá vestræn ríki til að láta Úkraínuher í té vopn. Segir Le Figaro að tekjum af einkavæðingunni, tæpum 900 milljónum evra frá upphafi árs 2023, hafi einkum verið varið til að kaupa árásarvopn fyrir Úkraínuher.

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …