Í Bandaríkjaþingi er nú til afgreiðslu lagafrumvarp þar sem mælt er fyrir um að sendiráðsmenn Rússlands í Bandaríkjunum verði að fá samþykki alríkislögreglunnar, FBI, vilji þeir ferðast lengra en 40 km frá opinberri starfsstöð sinni í Bandaríkjunum.
Í frumvarpinu er einnig mælt fyrir um að skipuð skuli ný opinber nefnd til að fjalla um það sem nefnt er viðleitni Rússa til að hafa áhrif á skoðanir útlendinga.
Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði miðvikudaginn 7. desember í Moskvu að bandaríska lagafrumvarpið væri liður í „galdraofsóknum“ fráfarandi ríkisstjórnar Baracks Obama á hendur Rússum.
„Vilji núverandi stjórnvöld Bandaríkjanna takmarka ferðafrelsi sendimanna Rússlands er auðvitað full ástæða til að minna á að stjórnmálasamband ríkja er reist á reglunni um gagnkvæmni,“ sagði Zakharova. „Í stuttu máli sagt, bandarískir sendiráðsmenn fá sömu meðferð í Rússlandi.“
Hún sagði einnig: „Við glímum hér við dæmi um klínísk áhrif Rússagrýlunnar. Þetta er ekki annað en afrit reglna sem giltu í kalda stríðinu.“
Fulltrúadeild Bandarikjaþings hefur þegar samþykkt frumvarpið og það hefur verið samþykkt í nefnd öldungadeildarinnar sem fjallar um starfssvið leyniþjónustunnar. Öldungadeildin sjálf hefur ekki lokið afgreiðslu málsins.
Bandaríska utanríkisáðuneytið hefur ekki gefið opinbera umsögn um frumvarpið. Í fréttum er vitnað í ónafngreinda heimildarmenn innan ráðuneytisins sem lýsa efasemdum um takmarkanirnar á ferðafrelsi og afleiðingar þeirra fyrir bandaríska sendiráðsmenn í Rússlandi, margir þeirra séu nú þegar teknir óblíðum tökum af rússneskum öryggisstofnunum.
Óvíst að frumvarpið hljóti afgreiðslu fyrir stjórnarskiptin í Washington. Donald Trump tekur við forsetaembættinu 20. janúar 2017. Talið er að hann hafi minni áhuga en Obama á að rita undir lög um þetta efni. Hann hefur oftar einu sinni sagt að hann vilji friðmælast við Rússa og hlotið hljómgrunn hjá Vladimir Pútín forseta.