
Erindið sem Clive Johnstone, yfirmaður flotastjórnar NATO, flutti á fundi Varðbergs 23. september sl. hefur verið birt hér á síðunni í heild á ensku. Hér er hins vegar birtur kafli úr því sem snýr sérstaklega að mikilvægi GIUK-hliðsins fyrir varnir NATO. Ísland er í hliðinu miðju og þess vegna skiptir miklu að Íslendingar átti sig vel á öllum hræringum sem varða GIUK-hliðið og mat á gildi þess.
Hér birtist þessi kafli ræðunnar í þýðingu vardberg.is:
„Ég var beðinn um að tala um mikilvægi GIUK-hliðsins fyrir NATO. Einfalda svarið er: Það er vissulega mjög mikilvægt.
Það er mikilvægt í strategísku samhengi vegna þess að þar er að finna og hefur alltaf verið að finna strategískar krossgötur milli Noður-Íshafs, Atlantshafs og Norðursjávar. Vegna þessa strategíska mikilvægis kann að koma til keppni um það eins og í síðari heimsstyrjöldinni og síðar í kalda stríðinu.
Á árunum eftir fall Berlínarmúrsins beindist minni athygli að þessu svæði en verið hafði. Í 20 ár var litið á svæðið sem utan strategískrar alfaraleiðar, allra augu beindust að Persaflóa og síðan að Indlandshafi.
Þegar tekið er til við að ræða málið að nýju vil ég lýsa fyrir ykkur hvers vegna ég tel að GIUK-hliðið sé aftur komið á dagskrá og hver áhrif þess verða fyrir stefnu og störf NATO á höfunum.
Í upphafi er óhjákvæmilegt að nefna helstu ástæðuna, hún er breyting á samskiptum NATO og Rússa. Rússar máttu þola tuttugu ára kreppu sem leiddi næstum til þess að floti þeirra hyrfi úr sögunni, nú hafa Rússar hins vegar að nýju hafið alþjóðlega keppni við Vesturlönd á ýmsum strategískum svæðum. Þetta er eitt þeirra. […]
Rússneski flotinn hefur náð sér að nokkru leyti eftir hrun sitt snemma á tíunda áratugnum. Til sögunnar eru komin ný herskip og kafbátar, virkni heraflans er öflug, ný vopn hafa verið tekin í notkun eins og Kalbr-stýriflaugin til árása á skotmörk á landi, merkinu er haldið hærra á loft. Rússar áttu áður 240 kafbáta en eiga nú 70. Sumir þessara kafbáta eru hins vegar betri og hljóðlátari heldur en bátarnir sem hafa nokkru sinn verið í eigu þeirra. Okkur ber að taka þetta alvarlega.
Umsvif rússneskra kafbáta eru meiri nú en nokkru sinni síðan kalda stríðinu lauk og í sumum tilvikum eru þeir einstaklega ágengir. Þið hafið einnig kynnst því að sprengjuþotur fljúga skammt frá lofthelgi Íslands.
Rússneski flotinn hefur einnig látið verulega mikið að sér kveða í Norður-Íshafi, á heimskautasvæðinu eru Rússar að reisa nýjar herstöðvar og þeir stunda þar heræfingar. Ný norðurslóða-herstjórn er komin til sögunnar og flotinn er reglulega sendur til víðtækra æfinga. […]
Að sjálfsögðu hafa Rússar fullan rétt til að smíða og sigla þessum skipum og fljúga þessum vélum innan ramma alþjóðalaga á sama hátt og við höfum rétt til þess. Af okkar hálfu er alls ekki ætlunin að trufla eða banna ferðir herskipa annarra landa á alþjóða siglingaleiðum. Á það legg ég auk þess áherslu að alls ekki er ætlunin að hverfa aftur til kalda stríðsins – við verðum hins vegar að vera undir það búin að takast á við hvað eina sem að höndum ber í óráðinni framtíð. Við þörfnumst viðveru, stöðu og virkni sem fælir þá frá sem vilja nú ögra eða sýna ævintýramennsku. Við verðum að vera trúverðug og hafa afl til að færast í aukana reynist það nauðsynlegt.
ÖysteinBo, aðstoðarráðherra í Noregi, hefur nýlega hvatt til þess að hugað verði að nýjum úrræðum til að tryggja öryggi á siglingaleiðum NATOá Norður-Atlantshafi, hæfni til hernaðaraðgerða verði efld og stjórnkerfi bætt í samræmi við það, tengslin milli flotastjórnar einstakra ríkja og yfirstjórnar NATO verði dýpkuð.
Íslendingar og Norðmenn standa þó ekki einir þegar um þetta er rætt. Jamie Foggo, flotaforingi, yfirmaður 6. flota Bandaríkjanna, birti nýlega ígrundaða grein um fjórðu orrustuna um Atlantshafið. Kathleen Hicks í CSIS-hugveitunni í Washington hefur stjórnað yfirgripsmikilli rannsókn á neðansjávarstríði í norðurhluta Evrópu þar sem vandinn er greindur og kynntar margar góðar leiðir til að takast á við hann. Í heimalandi mínu [Bretlandi] er í nýjustu áætlun um framkvæmd varnarstefnunnar gert ráð fyrir að fé verði fest í búnaði til varna gegn kafbátum og herskipum, að við getum að nýju leitað að kafbátum úr lofti með P8-vélum sem keyptar verða frá Bandaríkjunum og styrkt stöðu okkar á höfunum með tveimur flugmóðurskipum af Queen Elizabeth-gerð. Herfloti Kanada hefur látið verulega að sér kveða til að styrkja umsvif NATO á Atlantshafi með öflugum skipum og flugvélum – ég gæti haldið áfram …
Að efla kafbátavarnir skiptir sköpum fyrir mig þegar litið er til þess hvernig Rússar skipa flota sínum og vegna þess að þær hafa ekki verið forgangsmál innan NATO eða við þjálfun og æfingar á þess vegum í mörg ár. Við stöndum vissulega framarlega í þessu efni en ljómann yfir getu okkar má ef til vill frekar rekja til þess sem áður var en þess sem við gerum núna. Við þurfum að bæta okkur, einkum þegar við störfum saman sem fjölþjóðlegur herafli sem efnir til aðgerða gegn kafbátum með herskipum, kafbátum og flugvélum. Ég hef sett það sem forgangsmál í stjórnartíð minni að við styðjum þjóðir í því skyni að viðhalda yfirburðum NATO í aðgerðum gegn kafbátagetu hugsanlegs andstæðings, einkum að því er varðar stjórn, eftirlit, fjarskipti og samhæfingu. Hvergi er meiri þörf fyrir þetta en hér á Norður-Atlantshafi og almennt á Atlantshafi.
Á liðnu ári hafa flotar NATO-ríkjanna og MARCOM [Maritime Command, flotaherstjórn NATO í Northwood á Englandi] fylgst með ferðum skipa í rússenska herflotanum, þar með kafbáta, á Atlantshafi og Miðjarðarhafi. MARCOM hefur stöðu sem miðstöð fjölþjóðlegra aðgerða sem ná bæði til Fastaflota NATO (Standing Naval Forces) og flota einstakra ríkja, þetta er svipað hlutverk og SACLANT [Atlantshafsherstjórn NATO í Norfolk í Bandaríkjunum] gegndi á sínum tíma. Við látum meira að okkur kveða á Eystrasalti, Svartahafi, Atlantshafi og Miðjarðarhafi en við höfum gert í mörg ár.
Á ríkisoddvitafundi NATO í Varsjá [í byrjun júlí 2016] var þessu framtaki fagnað sérstaklega og hvatt til þess að ISR [intelligence, surveillance and reconnaissance – upplýsingaöflun, eftirlit og greining] og vöktun á ferðum skipa hugsanlegs andstæðings yrði aukin á höfunum til að fyrir hendi yrði strategískur fyrirvari kæmi til fjandsamlegra aðgerða.
Kafbátavarnir skipta máli á sama hátt og varnir gegn loft- og landher vegna þess að nauðsyn siglingaleiða, flutnings á liðsauka yfir Atlantshaf og framvarnir eru óaðskiljanlegir þættir sé litið til Norður-Atlantshafs. Flotar kafbáta, herskipa og eftirlitsflugvéla og geta þeirra hefur breyst mikið síðan í kalda stríðinu, ég óttast að við höfum þó ekki haldið í við þróunina við mótun aðgerðastefnu okkar og framkvæmd hennar. Hvað er úrelt af því sem áður reyndist vel og hvað heldur gildi sínu? Hvernig er best að tryggja sér taktíska yfirburði í aðgerðum á Atlantshafi nú án tímum og hvaða áhrif hefur það á hvernig högum gerðum okkar?
Þessum spurningum verður ekki svarað nema við gerum verulegt átak til að auka hæfni okkar á sviði kafbátavarna.“