
Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Rússlandi hafa ákveðið að binda enda á 18 mánaða rof á tengslum milli hernaðaryfirvalda sinna og hefja viðræður í því skyni að koma í veg fyrir árekstra milli flugherja landanna sem eiga hlut að stríðinu í Sýrlandi. Bandaríska varnarmálaráðuneytið skýrði frá þessu föstudaginn 18. september.
Ákvörðunin um viðræðurnar tengist framkvæmdum Rússa við gerð mikillar herstöðvar í Sýrlandi þar sem bæði eru rússneskir hermenn og flugvélar. Yfirlýst markmið Rússa er að styðja Bashar al-Assad Sýrlandsforseta en Bandaríkjamenn eru andstæðingar hans, Forsetinn og stjórn hans eiga undir högg að sækja og sæta miklu ámæli fyrir grimmd í borgarastríðinu.
Bandarískur herforingi sagði miðvikudaginn 16. september að aðgerðir Rússa kynnu að skapa hættu fyrir bandaríska flugmenn. Þær flæktu mjög allar ákvarðanir vegna lofthernaðar Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra gegn Íslamska ríkinu en það teygir sig yfir stóran hluta Íraks og Sýrlands,
Bandaríkjamenn vilja að stjórnendur flugherafla síns ræði við rússneska foringja um það sem gerist á átakasvæðinu til að komast hjá mistökum og misskilningi.
Engar viðræður milli yfirstjórnar herja Bandaríkjanna og Rússlands hafa farið fram síðan í mars 2014 þegar Rússar innlimuðu Krímskaga í andstöðu við vilja stjórnar Úkraínu og alþjóðalög.
Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, ræddi að morgni föstudags 18. september í 50 mínútur í síma við Sergei Shoygu, varnarmálaráðherra Rússlands, um stöðuna í Sýrlandi. Komu ráðherrarnir sér saman um að nánari viðræður færu fram til að draga úr líkum á árekstrum milli flugherja landanna í Sýrlandi í átökunum við Íslamska ríkið.
Talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins sagði að Rússar hefðu átt frumkvæði að símtalinu eftir diplómatískum leiðum.
Hin nýja herstöð Rússa rís við flugvöll bæjarins Latakia á Miðjarðarhafsströnd Sýrlands. Unnið er að endurbótum á flugbrautum, gerð þyrlupalla, uppsetningu færanlegra íbúðarskála auk sem nýr flugturn er í smíðum. Þetta má sjá á gervihnattamyndum sem opnar eru almenningi. Þá herma fréttir að Rússar víggirði flugvöllinn með skriðdrekum og fallbyssum.
Í símtalinu sagði rússneski varnarmálaráðherrann við hinn bandaríska að aðgerðirnar væru í varnarskyni og til þess að Rússar gætu efnt skuldbindingar við stjórn Sýrlands.
Í frétt vefsíðunnar defensenews.com er þessum umsvifa Rússa í Sýrlandi lýst sem hinum most aggressive military provocations in years – mest ögrandi hernaðaraðgerðum Rússa um langt árabil. Þær gætu reynst ríkisstjórn Assads mikilvægur bjarghringur en her hennar hefur farið halloka undanfarið í átökum við Íslamska ríkið og aðra andstæðinga sína,
Rússneska herliðið í Latakia er tæpa 200 km frá yfirráðasvæði Íslamska ríkisins skammt frá borginni Aleppo. Þar gera bandarískar vélar loftárásir daglega.
Heimild: defensenews.com