Home / Fréttir / Sýður upp úr hjá Kínverjum vegna innilokunar-stefnunnar „núll-COVID“

Sýður upp úr hjá Kínverjum vegna innilokunar-stefnunnar „núll-COVID“

Mótmæli í Shanghai að kvöldi 26. nóvember 2022.

Mótmæli magnast í Kína gegn hörðum sóttvarnareglum stjórnvalda sem loka milljónir manna inni á heimilum þeirra. Að minnsta kosti 10 manns týndu innilokuð lífi þegar eldur kom upp í íbúð þeirra að kvöldi fimmtudags 24. nóvember í háhýsi í Urumqi í Xinjiang-héraði í norðvestur hluta Kína. Við fyrstu fréttum um hann brugðust yfirvöld með því að saka íbúa háhýsisins um ábyrgð á dauða fólksins.

Mannskæður eldsvoðinn í Urumqi varð til þess að gagnrýnar, reiðilegar spurningar til stjórnvalda flæddu inn á samfélagsmiðla um það hvort slökkviliðsmenn hefðu þurft þrjár klukkustundir til að slökkva eldinn eða fólk sem reyndi að flýja hann hefði verið læst inni eða sætt öðrum hindrunum.

Reiði íbúanna í Urumqi breyttist í mótmælaöldu þegar starfsmenn borgarinnar reyndu að kenna íbúum háhýsisins um að fólk hefði orðið eldinum að bráð.

„Geta sumra íbúanna til að bjargast af sjálfsdáðum var of lítil“ sagi Li Wensheng, slökkviliðsstjóri í Urumqi, á blaðamannafundi.

Lögreglan handtók 24 ára konu og var hún sökuð um að breiða út „ósannar upplýsingar“ um dauða íbúanna á netinu.

Síðdegis föstudags 25. nóvember mótmæltu íbúar í Urumqi á götum úti, að mestu friðsamlega í vetrarkuldanum. Myndskeið frá mótmælagöngunni sýna að kínverska fánanum var haldið á loft og fólkið hrópar: Opnið! Opnið!. Sumir gera hróp að hvítklæddum öryggisvörðum og ýta við þeim þar sem þeir standa í röðum.

Þá hrópar fólkið einnig: Fjarlægið Kommúnistaflokkinn! Fjarlægið Xi Jinping!

Íbúum í Urumqi var 8. ágúst bannað að yfirgefa íbúðir sínar, síðan hefur þeim meira segja verið bannað að opna glugga. Föstudaginn 25. nóvember höfðu margir þetta bann að engu, opnuðu glugga á íbúðum sínum, mótmæltu hástöfunum og öskruðu: Hættið innilokunum! Hættið innilokunum!

Bent er á að sérstaklega hættulegt sé að mótmæla í Xinjiang-héraði þar sem Úígúr múslimar sæta ofsóknum kínverskra yfirvalda og hafa verið handteknir þúsundum saman.

Rætt var við Úígúr-konu sem sagði að fólk af sínu sauðahúsi þyrði ekki að mótmæla núna, Han-kínverjar stæðu að mótmælunum. Þeir vissu að þeim yrði ekki refsað fyrir að andmæla. Úígúrar sættu á hinn bóginn harðræði.

Laugardaginn 26. nóv. tilkynntu yfirvöld í Urumqi að náðst hefði „samfélagslegt núll-COVID“ og slakað yrði á útgöngubanninu, mundu ferðir leigubíla, járnbrautarlesta, strætisvagna og önnur almanannaþjónusta hefjast að nýju eftr margra vikna lokun. Ríkisflugfélagið tilkynnti að mánudaginn 28. nóv. yrði flogið að nýju frá Urumqi til fjögurra kínverskra borga.

Þessum tíðindum var tekið af kaldhæðni á samfélagsmiðlum og sannleiksgildið dregið í efa.

Minningarstund í Shanghai að kvöldi 26. nóvember vegna þeirra sem dóu í eldsvoðanum í Urumqi í Xinjiang-héraði.

Vegna atburðanna í Urumqi hófust mótmæli í fjölmennustu borg Kína, Shanghai um miðnætti laugardaginn 26. nóvember. Komu mótmælendur saman á Mið-Urumqstræti með blóm, kerti og spjöld með áletruninni: Urumqi 24. nóvember, hvíli látnir í friði.

Fréttastofur vitna til mótmælanda að nafni Zhao sem segir að lögregla hafi barið einn vina sinna og tveir orðið fyrir piparúða. Hann segir að lögregla hafi troðið sér um tær og hann hafi forðað sér berfættur.

Myndskeið á samfélagsmiðlum sem sögð voru frá Nanjing í austri, Guangzhou í suðri og að minnsta kosti fimm öðrum borgum sýna mótmælendur takast á við lögreglu sem klæðist hvítum sóttvarnabúningum. Ræðst fólkið einnig á varnargirðingar sem hafa verið reistar til að einangra einstök hverfi.

Kínaforseti Xi Jinping og stjórn hans heldur fast við „núll-COVID“ stefnu sína við vaxandi óvinsældir meðal almennings. Framkvæmd stefnunnar snýst um að halda faraldrinum í skefjum með útgöngubanni og algjörri innilokun. Gengur stefnan þvert á það sem stjórnir annarra landa gera til að laga daglegt líf að veirunni.

Kommúnistastjórnin sætir æ þyngri gangrýni vegna þess álags sem af stefnu hennar leiðir fyrir allan almenning og auk skaðlegra áhrifa á atvinnu- og efnahagslíf. Innilokaðar fjölskyldur mega jafnvel þola matar- og lyfjaskort, þeim eru allar bjargir bannaðar.

Í október lofuðu flokksforingjar að aflétt yrði ströngum kröfum um einangrun án þess að horfið yrði frá stefnunni um „núll-COVID“.

 

Heimild: Euronews

 

 

Skoða einnig

NATO verður að móta norðurslóðastefnu til að svara umsvifum Rússa frá Kólaskaga

Liselotte Odgaard er Senior Fellow, Hudson Institute, Washington, D.C. Greinin sem hér er sagt frá …