Home / Fréttir / Svíþjóð: Vinstri-flokkurinn hefur líf stjórnar Löfvens í hendi sér

Svíþjóð: Vinstri-flokkurinn hefur líf stjórnar Löfvens í hendi sér

Úr sænska þinginu.
Úr sænska þinginu.

Sænski Græni-flokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn samþykktu formlega sunnudaginn 13. janúar að styðja samkomulag sem gert var föstudaginn 11. janúar um að Jafnaðarmannaflokkurinn undir forystu Stefans Lövfens forsætisráðherra færi áfram með stjórnarforystu í minnihlutastjórn í Svíþjóð. Samkomulagið er reist á vilja aðila þess til að halda Svíþjóðardemókrötum frá áhrifum á stjórn landsins.

Kosið var til þings í Svíþjóð í september og síðan hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til stjórnarmyndunar í umboði forseta sænska þingsins. Boðað er að gengið verði til atkvæða á sænska þinginu miðvikudaginn 16. janúar á grundvelli samkomulags flokkanna fjögurra.

Miðflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn standa að samkomulaginu um að Löfven verði áfram forsætisráðherra. Flokkarnir tveir rjúfa þar með mið-hægri fylkinguna á sænska þinginu og halla sér til vinstri. Í þessu ljósi tala menn um „tímamót“ eða „krossgötur“ í sænskum stjórnmálum.

Isabella Lövin, málsvari græningja, sagði eftir samþykkt flokksins: „Annaðhvort leyfum við rasisma að ráða ferð eða við tökum höndum saman til að verja heim samstöðu og lýðræðis.“

Hún sagði að með samkomulagi flokkanna fjögurra yrðu hægrisinnar og popúlistar frystir úti og vísaði hún með þeim orðum til Svíþjóðardemókratanna. Að miðflokksmenn og frjálslyndir neituðu að setjast í mið-hægristjórn með stuðningi Svíþjóðardemókrata lagði grunn að samkomulaginu föstudaginn 11. janúar.

Sé gengið að því sem vísu að jafnaðarmenn og græningjar styðji Löfven sem forsætisráðherra og miðflokksmenn og frjálslyndir sitji hjá til að verja hann falli þarf hann samt stuðning þingmanna flokksins lengst til vinstri – Vinstri-flokksins – til að stjórnin verði mynduð.

Sunnudaginn 13. janúar telur Mats Knutson, stjórnmálaskýrandi sænska ríkisútvarpsins (SVT), mjög óvíst hvort sænska þingið styðji samkomulagið og þar með framhald á stjórnarforystu Löfvens.

Nú skipti sköpum hvað Vinstri-flokkurinn geri. Flokkurinn hafi ekki gert upp hug sinn og innan hans vilji áhrifamenn að hann hafni þessari stjórn.

Knutson segir að auðvelt sé fyrir Vinstri-flokkinn að skýra andstöðu sína við samkomulagið og þar með stjórnina. Í samkomulaginu sé stefnu flokksins til dæmis í skatta- og velferðarmálum hafnað. Þá sé einnig að finna texta sem sýni vilja til að binda enda á pólitísk áhrif Vinstri-flokksins – þau verði engin á kjörtímabilinu, segir í samkomulaginu.

Segi Vinstri-flokkurinn nei við stjórninni vaxa líkur á að þing verði rofið og gengið til kosninga. Neikvæð afstaða flokksins gæti einnig leitt til þess að Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, fæli Ulf Kristersson, formanni Moderatarna (mið-hægri), umboð til stjórnarmyndunar. Reyndi þá á hvort miðflokksmenn og frjálslyndir hafni Kristersson að nýju.

Annie Lööf, formaður Miðflokksins, og Jan Björklund, formaður Frjálslynda flokksins, hafa staðið í ströngu við að knýja fram stuðning við samkomulagið í þágu stjórnar undir forystu Löfvens. Þau kunna að lokum að styðja Kristersson þegar allt annað hefur verið reynt til þrautar. Þar með yrði komist hjá þingrofi og nýjum kosningum.

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …