Stuðningsmönnum NATO-aðildar fjölgar í Svíþjóð samkvæmt niðurstöðu könnunar sem birt var miðvikudaginn 20. apríl.
Demoskop gerði könnuna fyrir Aftonbladet og sýnir hún að 57% Svía styðja nú NATO-aðild, í mars voru þeir 51%. Nú eru 21% andvígir aðild en voru 24%, óákveðnum fækkar úr 25% í 22%.
Þegar niðurstaða mars-könnunarinnar var birt reyndist meirihluti Svía í fyrsta skipti í sögunni styðja aðild að NATO.
Svíar hafa ekki átt í hernaði við aðra í meira en 200 ár, það er á tíma Napóleons. Stefna þeirra í öryggismálum hefur til þessa verið reist á að „standa utan við hernaðarbandalög“.
Þáttaskil urðu í afstöðu Svía til öryggismála eftir innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022.
Sænska ríkisstjórnin og jafnaðarmenn sem ráða henni endurmeta nú stefnu sína í öryggismálum og á matinu að ljúka fyrir lok maí 2022.
Könnun Demoskop var gerð 14. til 19. apríl. Þar kemur fram að meðal stuðningsmanna Jafnaðarmannaflokksins styðja mun fleiri NATO-aðild en eru andvígir henni.