Home / Fréttir / Svíþjóð: Stjórnarkreppan versnar – umboðið í höndum Löfvens

Svíþjóð: Stjórnarkreppan versnar – umboðið í höndum Löfvens

 

Stefan Löfven, starfandi forsætisráðhertra, og Andre Norlén þingforseti.
Stefan Löfven, starfandi forsætisráðhertra, og Andre Norlén þingforseti.

Stjórnarkreppa hefur verið í Svíþjóð síðan 25. september þegar meirihluti þingsins lýsti vantrausti á jafnaðarmanninn Stefan Löfven og samsteypustjórn hans með græningjum. Löfven hefur síðan leitt starfsstjórn en föstudaginn 23. nóvember veitti Andres Norlén, forseti sænska þingsins, Löfven umboð til stjórnarmyndunar og tekur þingið af skarið um hvort hún tekst í atkvæðagreiðslu 5. desember.

Þingið hafnaði Ulf Kristersson, leiðtoga Moderatarna (mið-hægri), sem forsætisráðherra í síðustu viku. Ekki er talið útilokað að Löfven takist að fá þingmeirihluta að baki stjórn undir forsæti sínu.

Þegar Norlén kynnti ákvörðun sína sagði hann þjóðin vildi að gengið yrði til þess að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Sagðist hann helst vilja sjá nýja ríkisstjórn við völd þegar þingið greiðir atkvæði um fjárlög 2019 miðvikudaginn 12. desember.

„Það er engin trygging fyrir því að honum takist að mynda stjórn en við verðum að herða á ferlinu og tímaramminn skýrist,“ sagði þingforsetinn.

Fimmtudaginn 22. nóvember gafst Annie Lööf, formaður Miðflokksins, upp við tilraun til að mynda stjórn sem brúaði bilið milli hægri og vinstri á þingi. Hún lagði enga tillögu fyrir þingið.

Ulf Kristersson, formaður Moderatarna, segir óvíst að Löfven takist stjórnarmyndun. Hann segist helst ekki vilja að gengið verði að nýju til kosninga en ekki sé unnt að útiloka að það gerist. Hvorki eigi að óttast né hóta með nýjum kosningum. Ólíklegt sé þó að þær leysi vandann. Hann sagði á fundi miðstjórnar flokks síns föstudaginn 23. nóvember að ekki ætti að binda vonir við samsteypustjórn jafnaðarmanna og Moderatarna – þá sætu menn að vísu við völd en gætu lítið annað vegna ágreinings um meginmál.

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …