Home / Fréttir / Svíþjóð: Skotárásum fækkar í borgum – færast norðar

Svíþjóð: Skotárásum fækkar í borgum – færast norðar

Mattias Sigfridsson, starfandi lögreglustjóri í Malmö, og Anna Palmqvist vara-saksóknari.
Mattias Sigfridsson, starfandi lögreglustjóri í Malmö, og Anna Palmqvist vara-saksóknari.

Alls féll 41 fyrir skotvopnum í Svíþjóð á árinu 2019. Það er svipaður fjöldi og undanfarin ár en lögregla segir að verulega hafi dregið úr skotárásum í stærstu borgum landsins.

Mattias Sigfridsson, starfandi lögreglustjóri í Malmö, sagði á blaðamannafundi þriðjudaginn 7. janúar að þar hefði tekist að hindra nokkrar skotárásir. Á árinu 2019 féllu 34 í Malmö í skotárásum og er það lægsta tala myrtra í sex ár. Þá voru færri sprengjuárásir í borginni en áður en lögreglan tók að skrá þær sérstaklega árið 2017.

Eftir að 15 ára piltur var skotinn var ráðist í sérstakar gagnaðgerðir af hálfu sænsku lögreglunnar sem skilað hafa góðum árangri. Lögreglan leggur meiri áherslu en áður á forvarnir.

Sigfridsson segir of snemmt að segja um varanlegan árangur breyttra starfsaðferða lögreglunnar. Ógerlegt sé að segja fyrir um illvirki sem kunna að verða unnin. Skipulega hafi verið unnið að því að brjóta upp glæpahópa sem hafi nú látið sig hverfa. Þá sé algengt að vopn séu gerð upptæk.

Skráðar voru 320 skotárásir í Svíþjóð á árinu 2019 og eins og fyrr sagði týndi 41 lífi vegna þeirra. Flestar árásirnar voru í Stokkhólmi (85) og þar féllu 16. Í Malmö og nágrenni voru árásirnar 65 og 10 féllu. Í lögregluumdæmi í miðhluta Svíþjóðar voru 53 árásir en 5 féllu.

Á sama tíma og mannfall af völdum skotárása minnkar í þéttbýlasta hluta Svíþjóðar vaxa áhyggjur af þróuninni í dreifbýli landsins.

Í norðurhluta Svíþjóðar fjölgaði skotárásum mest úr 3 árið 2017 í 28 árið 2019, voru tvær þeirra banvænar. Lítið benti til að rekja mætti þetta til skipulagðrar glæpastarfsemi að sögn Lars Wahlbergs lögreglustjóra. Hann segir að hættan á skotvopnum sé beitt vaxi með aukinni byssueign. Það sé ekki nýtt að glæpamenn eigi í illdeilum hver við annan, hitt sé nýtt að þeir eigi svona mikið af byssum og sprengjum.

Heimild: Local.se

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …