Home / Fréttir / Svíþjóð: Rússar sagðir ögra með njósnum og áreiti í garð hermanna

Svíþjóð: Rússar sagðir ögra með njósnum og áreiti í garð hermanna

 

Tomas Ries
Tomas Ries

Undanfarið hafa borist margar frásagnir til sænskra yfirvalda þar sem lýst er grunsemdum um njósnir Rússa í Norður-Svíþjóð auk þess sem einstaka sænskir hermenn á svæðinu hafa orðið fyrir áreiti segir í frétt frá sænska ríkissjónvarpinu, SVT Norrbotten, þriðjudaginn 21. september.

„Í hverri viku berast mér frásagnir af meiri eða minni njósnastarfsemi,“ sagði Mikael Frisell, yfirmaður herstjórnarsvæðisins í norðri, við SVT.

Athygli njósnaranna beinist einkum að búnaði hersins og æfingum hans. Þá eru dæmi um að reynt sé að stofna til sambands við hermenn á samfélagsmiðlum eða á almannafæri.

Til dæmis hefur verið skýrt frá því að herforingja frá NATO-landi hafi verið „ógnað“ af Rússa á krá þegar hann var staddur í bænum Luleå í tengslum við NATO-æfingu þar. Sagt er að meðal annars hafi herforingjanum verið sýndar myndir af fjölskyldu hans og hann verið krafinn um upplýsingar um heræfinguna. Í Svenska Dagbladet er sagt frá því að sænskir hermenn á Gotlandi hafi sætt ásókn ókunnugra.

SVT sneri sér til Peters Hultqvists varnarmálaráðherra sem sagði að engum ætti að koma á óvart að stundaðar væru njósnir og Svíar yrðu að vera við því búnir. „Rússar eru meðal þeirra þjóða sem nefndar hafa verið í tengslum við þessa njósnastarfsemi. Það eru í sjálfu sér ekki neinar fréttir. Þegar litið er á einstök mál snúa þau að hluta að öryggislögreglunni og að hluta að hernum og þess vegna vil ég ekkert segja um þau.“

Herfræðingurinn Tomas Ries, lektor í strategíu og öryggismálum við  Försvarshögskolan í Stokkhólmi, leggur áherslu á að enn sé of snemmt að draga endanlegar ályktanir vegna þessara frásagna. Það verði til dæmis að fá það staðfest að það hafi verið Rússi eða einhver á vegum Rússa sem hafi haft í hótunum við NATO-herforingjann.

Ries segir við SVT að hann hafi orðið undrandi þegar hann heyrði fréttir af þessum atvikum því að í kalda stríðinu hafi verið staðið öðru vísi að verki og ekki stofnað til vandræða að ástæðulausu. „Hafi vísvitandi verið stofnað til ágreinings felst í því mikil yfirlýsing. Þetta er aðferð sem menn nota til að sýna mátt sinn,“ sagði Ries.

Lektorinn telur að líta beri á ögranir af þessu tagi sem tilbrigði við það sem stundað er með því að senda rússneskar orrustuþotur í lofthelgi annarra ríkja eins og gert hefur verið undanfarin ár. Ries sagði:

„Finnsk yfirvöld hafa óopinberlega sagt að rússnesk yfirvöld séu nú frekari en áður. Þau haldi sig ekki til hlés lengur heldur vilji sýna afl sitt, að þau geti verið hættuleg og við eigum að sýna þeim virðingu. Það vekur óhug. Hve langt telja Rússar sig þurfa að ganga til að við í vestri sýnum þeim virðingu?“

Í Dagens Nyheter birtist sunnudaginn 18. september frétt um að hótun frá Rússlandi hafi verið ástæða þess að sænska ríkisstjórnin ákvað að hervæða Gotland að nýju og senda þangað herafla strax í síðustu viku.

„Það er um sálfræðilegan misskilning að ræða ef Rússar vilja að sænski herinn sýni þeim virðingu. Í stað þess að óttast reiðumst við og færum okkur nær Vesturlöndum. Sænska herstjórnin hefur einnig beðið Svía að láta sig vita sjái þeir eitthvað grunsamlegt í Suður-Svíþjóð. Það getur verið til marks um að hún viti að eitthvað gerist og vilji bregðast við því. Menn sitja ekki með hendur í skauti og bíða þess sem verða vill. Menn grípa að lokum til gagnaðgerða,“ sagði Tomas Ries við SVT.

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …