
Hryðjuverkið með flutningabílnum í helstu göngugötu Stokkhólms á dögunum hefur leitt til mikilla umræðna á sænskum stjórnmálavettvangi. Innan Miljöpartiets, Umhverfisflokksins, smáflokks í sænsku ríkisstjórninni með jafnaðarmönnum, hefur vaknað tillaga um að hælisleitendur sem bíða eftir brottvísun beri ökklabönd. Ekki eru allir á einu máli um þetta.
Gustav Fridolin, annar tveggja formanna Miljöpartiets, hreyfði tillögunni í samtali við blaðið Dagens Nyheter. Fridolin leggur til að ökklabönd verði meira notuð og sett á þá sem bíða brottvísunar frá Svíþjóð.
„Ökklabönd eru ein leið þegar um er að ræða fólk sem á sér einhverja sögu og óvissa er um og valda yfirvöldunum vandræðum.“
Bílstjóri flutningsbílsins er frá Uzbekistan og beið þess að verða fluttur frá Svíþjóð eftir að hafa verið neitað um hæli.
Tillaga Fridloins er framlag flokks hans í umræðum sænskra stjórnmálamanna um leiðir til að verjast hryðjuverkum. Stefan Löfven forsætisráðherra hefur kallað forystumenn allra flokka til viðræðna um málið. Tveimur dögum eftir árásina sagðist forsætisráðherrann vera miður sín yfir að ekki hefði tekist að koma Úzbekanum úr landi.
Fyrir utan að vilja ræða ökklabönd hefur Miljöpartiet óskað eftir að meiri fjármunum verði varið til sænsku öryggis- og leyniþjónustunnar Säpo. Flokkurinn vill einnig að miðlað sé upplýsingum frá Säpo til sænsku útlendingastofnunarinnar og lögreglunnar.
Ný skoðanakönnun sýnir að Miljöpartiet hefur ekki sterka samningsstöðu. Í fyrsta sinn í 15 ár er flokkurinn á barmi þess að falla undi 4% mörkin og þar með út af þingi í kosningum segir Svenska Dagbladet.