
Sænska ríkisstjórnin hefur hafið dreifingu á bæklingi til 4,8 milljón sænskra heimila með upplýsingum um viðbrögð ef til árásar komi. Bæklingurinn heitir Om krisen eller kriget kommer – Á hættu- eða stríðstímum – og er honum ætlað að veita almenningi leiðbeiningar um viðbrögð vegna „alvarlegra slysa, ofsaveðurs, tölvuárásar eða hernaðarátaka“.
Sænsku almannavarnirnar eru útgefandi bæklingsins. Þar er skýrt frá því hvernig standa skuli að öflun matar, vatns, hita og aðflutningum verði rof á almannaþjónustu. Sérstakur kafli fjallar um hvernig varast megi falsfréttir, hvernig bregðast skuli við viðvörunarmerkjum og hvernig aðstoða skuli sveitir sænska hersins.
Minnt er á að sænsk lög mæla fyrir um skyldu allra á aldrinum 16 til 70 til að taka þátt í alvörnum sé talin hætta á stríði eða það hafi hafist.

Bæklingurinn er 20 bls. og þar eru myndir af herflugvélum og skriðdrekum, ábendingar eru um hvaða matvæli skuli geymd til neyslu komi til árásar og minnt er á nauðsyn þess að eiga alltaf vatn á flöskum auk hlýs fatnaðar og svefnpoka.
Sambærlegar upplýsingar og fyrirmæli hafa ekki verið sendar til Svía síðan í kalda stríðinu. Viðhorf sænskra yfirvalda breyttist eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014. „Þótt Svíþjóð sé öruggara land en flest önnur, eru ógnir fyrir hendi,“ sagði Dan Eliasson, yfirmaður sænsku almannavarnanna, á fundi með blaðamönnum.
Sænsk stjórnvöld hafa hvað eftir annað nefnt árás Rússa sem eina af ástæðunum fyrir auknum öryggisráðstöfunum, má þar til dæmis nefna upptöku herskyldu á þessu ári og fasta viðveru sænskra hermanna á eyjunni Gotlandi.
Í fréttatilkynningu almannavarnanna sagði að miðlun upplýsinganna skipti miklu að mati sænsku ríkisstjórnarinnar í ljósi versandi ástands í öryggismálum annars staðar í heiminum.
Staðfesta og þolgæði sænsku þjóðarinnar er áréttuð á þennan veg í bæklingnum: „Verði Svíþjóð fyrir árás frá öðru landi kemur uppgjöf aldrei til greina. Allar upplýsingar í þá veru að andspyrnu sé hætt eru rangar.“
Nú eru um 200 ár frá því að Svíar áttu síðast í hernaðarátökum við aðra þjóð.
Heimild: Euronews