Home / Fréttir / Svíþjóð: Lögregla þögul um kynferðisbrot af ótta við rasistastimpil

Svíþjóð: Lögregla þögul um kynferðisbrot af ótta við rasistastimpil

Frá tónlistarhátíð í miðborg Stokkhólms.
Frá tónlistarhátíð í miðborg Stokkhólms.

 

 

Sænska lögreglan hefur farið leynt með kynferðislegar árásir sem farandkarlar gerðu á einni stræstu tónlistarhátíð Svíþjóðar, We Are Stockholm, á árunum 2014 og 2015. Dagens Nyheter  skýrði frá þessu mánudaginn 11. janúar og sagði að tekin hefði verið ákvörðun um að þegja um lögregluskýrslurnar. Alls voru kynferðislegu árásirnar 38 og þar af tvær nauðganir ef tekið er mið af kærum árin 2014 og 2015. Fréttirnar frá Svíþjóð eru birtar eftir að sagt var frá kynferðislegu árásunum sem gerðar voru á nýársnótt við brautarstöðina í Köln í Þýskalandi.

Fyrstu lögregluskýrslurnar eru frá ágúst 2014, þar stendur: „Þótt mannfjöldinn væri ekki sérstaklega mikill urðu margar stúlkur fyrir kynferðislegum árásum frá körlum sem földu sig í hópnum.“ Um er að ræða hátíð í Stokkhólmi sem nýtur mikilla vinsælda hjá unglingum á aldrinum 12 til 17 ára. Víða í miðborginni er efnt til tónleika.

Lögreglan taldi sig geta skilgreint um 50 manna hóp sem hefði staðið að árásunum. „Þetta eru ungir flóttamenn, einkum úr frá Afganistan. Nokkrir þeirra voru handteknir, sakaðir um áreitni. Þessi hópur stóð einnig að slagsmálum oftar en einu sinni um kvöldið,“ sagði lögreglan í Stokkhólmi. Í hátíðarvikunni voru nokkrar lögregluskýrslur skráðar en þess gætt að ekkert bærist um málin til fjölmiðla. Hið sama gerðist árið 2015.

Skýrslur um komu útlendinga til Svíþjóðar frá árinu 2015 sýna að það ár komu nokkur þúsund unglinga á aldrinuim 13 til 18 ára einir síns liðs til landsins, yfirgnæfandi meirihluti piltar.

Roger Ticoalu, viðburðastjóri borgarstjórnar Stokkhólms, lýsir áreitninni á þennan hátt: „Þarna voru hópar ungra karla sem leituðu að, umkringdu og áreittu ungar konur. Þegar við fengum fyrstu vísbendingar um hvað var að gerast héldum við að þetta gæti ekki verið satt.“ Ástandið var svo slæmt að lögreglan íhugaði um tíma að mynda tvo aðskilda hópa, stúlkna og pilta. Gæsla og varðstaða lögreglu var hert sumarið 2015 en í ljós kom að ráðstafanirnar gengu of skammt. Um 200 ungir karlar voru fjarlægðir af hátíðinni sumarið 2015. Í einni skýrslu sem sagt er frá í blaðinu kemur fram að ráðist hafi verið að stúlkum sem ekki voru nema 11 og 12 ára.

Öllu var þessu haldið leyndu fyrir almenningi og fjölmiðlum. Varg Gyllander, blaðafulltrúi lögreglunnar í Stokkhólmi, staðfestir að um vísvitandi þöggun hafi verið að ræða. „Auðvitað áttum við að skýra frá þessu öllu. Ég veit ekki hvers vegna það var ekki gert,“ sagði hann 11. janúar. Hið sama hefur gerst í Svíþjóð og Þýskalandi að yfirmaður lögreglunnar er sakaður um að draga fjöður yfir hlut hælisleitenda í þessum atburðum.

Ónafngreindir lögreglumenn hafa sagt að yfirvöldin hafi vísvitandi þagað um hlut erlendra aðkomumanna af ótta við að vera sökuð um rasisma segðu þau sannleikann. Einn yfirmanna lögreglunnar í Stokkhólmi, Peter Agren, lét hafa eftir sér: „Þetta er viðkvæmt atriði. Stundum þorum við ekki að segja frá gangi mála af því að við teljum að það geti gagnast Svíþjóðar-demókrötunum [stjórnmálaflokki gegn komu innflytjenda]. Við verðum að taka á þessu máli innan lögreglunnar.“

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, gagnrýndi lögregluna 11. janúar fyrir meðferð hennar á málinu. „Það er um mikið lýðræðislegt vandamál að ræða fyrir alla þjóðina ef upplýsingum er haldið leyndum fyrir almenningi.“ Þá sagði hann einnig: „Ég reiðist mjög yfir því að ungar stúlkur geti ekki tekið þátt í tónlistarhátíð án þess að eiga yfir höfði sér ofsóknir, kynferðislega áreitni, eða árásir […] Við verjum gildi okkar og lítum ekki undan.“ Ráðherrann krafðist skjótrar rannsóknar á vinnubrögðum lögreglunnar.

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …