Home / Fréttir / Svíþjóð: Kínverski sendiherrann hótar Ericsson vegna Huawei-banns

Svíþjóð: Kínverski sendiherrann hótar Ericsson vegna Huawei-banns

179385

Ákvörðun sænskra stjórnvalda um að banna kínversku fyrirtækjunum Huawei og ZTE að taka þátt í 5G-væðingu Svíþjóðar kann að kalla á refsiaðgerðir gegn sænskum fyrirtækjum í Kína. Gui Congyou, sendiherra Kína í Svíþjóð, segir að þetta muni óhjákvæmilega bitna á sænska símafyrirtækinu Ericsson.

Sendiherrann ræddi við fréttamann sænsku fréttastofunnar TT en sænska ríkisútvarpið SVT birti frétt um samtalið sunnudaginn 1. nóvember.

„Þú gerir þér væntanlega grein fyrir að 5G-tæknin varð til í samvinnu hátæknifyrirtækja heimsins, þar á meðal Huawei í Kína, Ericsson í Svíþjóð og Nokia í Finnlandi,“ spyr sendiherrann.

Í upphafi samtalsins endurtekur sendiherrann kröfuna um að sænsk yfirvöld afturkalli bannið gegn Huawei og ZTE. Hann segir að bannið hafi öfug áhrif.

Sendiherrann segir að bannið á Huawei vegna 5G-væðingarinnar í Svíþjóð skaði Ericsson óhjákvæmilega í Kína. Markaðshlutdeild Ericsson í Svíþjóð nemur 10%.

„Svíar geta ekki reiknað með að valda kínverskum fyrirtækjum alvarlegu tjóni án þess að það dragi dilk á eftir sér. Í ljósi þess hvernig málum er háttað á þessari stundu ætla ég ekki að svara spurningum um hverjar afleiðingarnar kunna að verða,“ segir sendiherrann.

Þegar bannið var tilkynnt í Stokkhólmi sagði Klas Friberg, yfirmaður öryggislögreglunnar Säpo, að Kínverjar stunduðu umfangsmiklar njósnir í Svíþjóð.

Þegar vikið er að skoðun Säpo segir Gui Congyou sendiherra að sænska öryggislögreglan skorti þekkingu á Kína og varnar- og utanríkisstefnu Kína sé ekki beint gegn öðrum löndum. Síðan nefnir hann Tævan og Hong kong þar aðskilnaðarsinnar reyni að kljúfa Kína eða hindra endursameiningu með sjálfstæðiskröfum.

„Kínverar eiga ekki einn einasta hermann á erlendri grund, hvernig er þá unnt að segja að kínverska þjóðin hóti öðrum þjóðum, meira að segja Svíum sem búa í mörg þúsund kílómetra fjarlægð frá Kína? Kenningin um ógn frá Kína er í raun hreinn hugarburður,“ segir kínverski sendiherrann í Stokkhólmi.

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …