Home / Fréttir / Svíþjóð: Forsætisráðherrann útilokar ekki tölvuárás Rússa í kosningum

Svíþjóð: Forsætisráðherrann útilokar ekki tölvuárás Rússa í kosningum

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svía.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svía.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði á öryggismálaráðstefnunni Folk och Försvar sunnudaginn 8. janúar að ekki væri „unnt að útiloka“ að Rússar reyndu að hafa áhrif á kosningar í Svíþjóð.

Ráðherrann flutti ræðu á árlegri ráðstefnu um sænsk öryggismál sem haldin er í Sälen, vinsælum skíðabæ í Dalarna í Svíþjóð. Sænska ríkisstjórnin hefur í nýrri þjóðaröryggisstefnu sinni skilgreint tölvuárásir meðal átta helstu ógna sem steðja að Svíþjóð.

Með vísan til skýrslu öryggis- og leyniþjónustustofnana í Bandaríkjunum um tölvuárásir Rússa til að hafa áhrif í bandarísku forsetakosningunum sagði forsætisráðherrann að svipuð atvik gætu gerst í Svíþjóð.

„Við eigum ekki að útiloka það og vera svo barnaleg að ímynda okkur að þetta gerist ekki í Svíþjóð. Þess vegna er upplýsingamiðlun og netöryggi hluti þessarar [varnar]stefnu,“ sagði jafnaðarmaðurinn Löfven við sænsku fréttastofuna TT.

Ræðu sína flutti forsætisráðherrann daginn eftir að Sænska utanríkismálastofnunin hafði sakað Rússa um að nota gervifréttir, fölsuð skjöl og aðra lygamiðlun til að hafa áhrif á töku ákvarðana í Svíþjóð.

Þegar ráðherrann var spurður hvort hætta væri á að Rússar reyndu að hafa áhrif á kosningar í Svíþjóð sagði hann: „Ég get að minnsta kosti ekki útilokað það. Bandaríkjamenn hafa greinilega skjalfest hvernig að því var staðið hjá þeim.“

Hann minnti jafnframt á að í ár yrði gengið til kosninga í Frakklandi og Þýskalandi og líklega einnig á Ítalíu, hvarvetna leiddu menn hugann að því hvað kynni að gerast í lýðræðisríkjum okkar.

Gengið verður til kosninga í Svíþjóð árið 2018.

Löfven sagðist vilja draga úr spennu gagnvart Rússum: „Það er eitthvað sem við verðum ávallt að hafa í huga. Margot Wallström utanríkisráðherra vill gjarnan funda með  rússneska utanríkisráðherranum Lavrov.“

Heimild: The Local

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …