Home / Fréttir / Svíþjóð: COVID-19 hugsanlega frá Wuhan í nóvember 2019

Svíþjóð: COVID-19 hugsanlega frá Wuhan í nóvember 2019

Anders Tegnell
Anders Tegnell

Heilbrigðisstofnun Svíþjóðar útilokar ekki að einstök tilvik af COVID-19 hafi borist til Svíþjóðar í nóvember 2019. Á þessu stigi er þó ekki markvisst unnið að því að leita að fyrstu tilvikunum.

Frétt um þetta birtist eftir að sagt var frá því í Frakklandi að þar hefði karl verið smitaður af kórónaveiru 27. desember, skömmu áður en sagt var frá fyrstu tilvikunum í Kína. Maðurinn var greindur með lungnabólgu en sýni sem þá var tekið er nú jákvætt sem kórónaveira. Maðurinn hefur náð sér að fullu en segist ekki hafa hugmynd um hvernig hann náði í veirusjúkdóminn.

Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, segir að líklega hafi einstaklingar í Svíþjóð einnig verið veikir af veirunni á þessum tíma.

„Það var engin útbreiðsla [á veirunni] utan Wuhan áður en við sáum hana síðar í Evrópu. Ég held hins vegar að það hafi mátt finna einstök tilvik meðal fólks sem ferðaðist til Wuhan í nóvember og desember í fyrra. Það er ekkert skrýtið, raunar frekar eðlilegt,“ sagði Tegnell.

Eins og málum er nú háttað í Svíþjóð er fyrsta staðfesta tilvikið þar um COVID-19 í konu í Jönköping sem reyndist jákvæð við sýnatöku 31. janúar 2020 en þá var hún nýkomin frá Kína. Hún hefur síðan náð sér eftir veikindin.

Sumarheimsleikar hermanna 2019 voru í Wuhan seint í október og þangað fóru rúmlega 100 manns úr sænska hernum og dvöldust í borginni í tvær vikur. Nokkrir úr keppendahópnum veiktust og voru skimaðir vegna veirunnar en enginn reyndist jákvæður.

Tegnell segir að ekki hafi verið skipulega rætt um hvort gera eigi rannsóknir vegna veirunnar á fólki í Svíþjóð veiktist í lungum síðla árs í fyrra. Ekki sé réttmætt að auka álag á heilbrigðiskerfið á þessari stundu með slíkum rannsóknum. Næg önnur verkefni séu fyrir hendi og slík rannsókn breytti ekki neinu.

Hann telur hins vegar hitt forvitnilegra að vita hvernig veiran breiddist út í Kína og hvernig hún hagaði sér á fyrstu stigum útbreiðslunnar: hvort hún hafi komist úr einu dýri í einn mann eða hvort hún hafi breiðst út innan hóps fólks á lengri tíma.

Tegnell segir ekki mörg tilvik þar sem tekist hafi að rekja smit til algjörlega nýrrar veiru frá dýrum til manna. Lítið sé vitað hvernig þetta gerðist í raun. Það hefði gildi að sjá hvernig fólk gæti varist slíkri framvindu í framtíðinni.

 

Heimild: local.se

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …