Home / Fréttir / Svissneskir stjórnmálamenn deila hart um útlendingamál – þingmeirihluti sakaður um svik við kjósendur og stjórnarskrána

Svissneskir stjórnmálamenn deila hart um útlendingamál – þingmeirihluti sakaður um svik við kjósendur og stjórnarskrána

Frá Sviss
Frá Sviss

Harðar deilur urðu á þingi Sviss miðvikudaginn 21. september þegar meirihluti þingmanna ákvað að ekki yrðu settar sérstakar hömlur á komu fólks frá ESB-ríkjum til landsins með innleiðingu strangra kvótareglna. Svissneski þjóðarflokkurinn (SVP) telur að með þessu hafi þingið brotið gegn niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu í febrúar 2014 og þar með einnig gegn stjórnarskrá landsins. Í svissneskum blöðum segir að frávik þingmanna frá niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu hafi aldrei verið svona mikið.

Deilt var hart um málið í fimm klukkustundir á þinginu í Bern áður en lyktir fengust. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar var að setja ætti skorður við komu útlendinga til landsins. Niðurstaða þingsins var að ekki skyldi setja kvóta heldur skerpa forgangsrétt svissneskra ríkisborgara á vinnumarkaði landsins. Ekki yrði gengið lengra til að þrengja að útlendingum nema samþykki fengist við því frá ráðamönnum ESB í Brussel.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í febrúar 2014 batt hendur svissneskra þingmanna. Ríkisstjórnin hefur í rúm tvö ár reynt að finna málamiðlun milli þessarar niðurstöðu um hömlur og tvíhliða samstarfs Sviss og ESB á grundvelli fjölmargra samninga sem ekki er unnt að framkvæma án þess að fólk á samningssvæðinu eigi rétt á frjálsri för.

Unnt er að vinna að lausn málsins þar til í febrúar 2017. Til þessa hafa viðræður við fulltrúa ESB ekki skilað neinum árangri.

Að loknum þingumræðunum miðvikudaginn 21. september samþykkti meirihluti þingmanna „milda“ lausn að tillögu þingnefndar. Þingmenn SVP greiddu einir atkvæði gegn tillögunni. Flokkurinn studdi að gengið var til þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 2014 og taldi nú að í tillögu þingnefndarinnar væri að finna of mikinn undanslátt þar sem hvorki væri talað um kvóta né sjálfstæði Sviss í útlendingamálum.

Adrian Amstutz, þingmaður SVP, sagði að tillagan bryti gegn „háleitri stjórnarskrá“ Sviss og jafngilti „dauða beins lýðræðis“. Aðrir andstæðingar tillögunnar sögðu þingnefndina bregðast hlutverki sínu með því að kynna þessa lausn.

Meirihluti þingmanna taldi hins vegar brýnna að halda lífi í sambandinu við ESB heldur en að fara í einu og öllu að niðurstöðunni frá 2014. Sósíalistinn Cesla Amarelle var framsögumaður nefndarinnar og sagði óhjákvæmilegt að standa vörð um tvíhliða samningana við ESB. „Mild“ lausn mundi losa um andstöðuna hjá ESB. Stjórnarskráin veitti þingmönnum svigrúm við þessar aðstæður.

Í blaðinu Le Temps sagði fimmtudaginn 22. september að aldrei fyrr hefðu þingmenn vikið eins langt frá niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu og með því að samþykkja tillögu þingnefndarinnar. Telur blaðið að skýra þurfi til hlítar hvernig niðurstaða þingmannanna samrýmist stjórnarskránni.

Í blaðinu Tages Anzeiger segir að ríkisstjórnin hafi „gefist upp“ og niðurstaða neðri deildar þingsins megi „ekki verða lokaorðið“ í málinu. Daniel Foppa blaðamaður segir:

„Frá þjóðaratkvæðagreiðslunni um útlendingamálin hafa ráðamenn í Bern glímt við ómöguleikann: að framkvæma niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og viðhalda tvíhliða samningunum. Í gær gafst neðri deildin upp … og ákvað að málið skyldi leyst án sjálfstæðs ákvörðunarvalds í útlendingamálum. Hver sá sem heldur öðru fram er markvisst að villa um fyrir almenningi.“

Í Der Bund segir að „milda“ niðurstaða þingsins kunni að duga til bráðabirgða og skapa Svisslendingum svigrúm þar til niðurstaða fáist í útgönguviðræðum fulltrúa ESB og Bretlands, Bretar standi í svipuðum sporum og Svisslendingar sé litið til útlendingamála.

 

Heimild: The Local

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …