Home / Fréttir / Svissneskir sauðfjárbændur berjast við úlfa og friðunarsinna

Svissneskir sauðfjárbændur berjast við úlfa og friðunarsinna

Frá mótmælum sauðfjárbænda í Lausanne gegn úlfum.

 

Svissneskir sauðfjárbændur frá Saint-Barthelemy-héraði lögðu laugardaginn 6. apríl hræ af 12 sauðkindum sem úlfar höfðu drepið fyrir framan Chateau Saint-Mair, þinghús svissnesku kantónunnar Vaud í Lausanne. Kantónan á landamæri að Frakklandi.

„Þessar kindur voru drepnar í gærkvöldi,“ sagði Eric Herb, félagi í svissneskum samtökum sem krefjast þess að reglur verði settar til að takmarka fjölda rándýranna. „Nú er kominn tími til aðgerða.“

„Við höfum fengið nóg af þessu. Það verður að drepa úlfinn,“ sagði Patrick Perroud, bóndi og slátrari, í nágrannabænum Oulens. „Það er ekki hægt að búa við þetta. Landsvæði okkar er of lítið.“

Mótmælendur sögðu Keystone-ATS-fréttastofunni að úlfar hefðu drepið 17 kindur á sama svæðinu í mars, tvær fyrr í liðinni viku og 13 á laugardag.

„Við höfum haldið okkur til hlés þar til núna, en að þessu sinni gekk þetta of langt,“ sagði Herb.

Bændurnir nutu stuðnings Svissneska þjóðarflokksins (SVP), stærsta flokksins í Sviss, og höfðu fengið leyfi lögreglu til að fara með hræin á segldúk fyrir framan héraðsþinghúsið. Þeir sögðust þurfa að vera á vakt allan sólarhringinn en yrðu að fá svefnfrið eins og aðrir.

Úlfum var útrýmt í Evrópu fyrir meira en einni öld en undanfarna áratugi hefur þeim fjölgað jafnt og þétt í Sviss og ýmsum öðrum Evrópulöndum.

Síðan fyrsta úlfahjörðin sást í Sviss árið 2012 hefur hjörðunum fjölgað þar í 32 með um 300 dýrum samtals.

Náttúruverndarsinnar fagna endurkomu úlfanna í nafni líffræðilegrar fjölbreytni og umhverfisverndar. Sauðfjárbændur segja árásum á dýr sín fjölga og vilja grisjun á úlfunum.

Í fyrra rýmkuðu svissnesk yfirvöld veiðiheimildir á úlfum og leyfðu grisjun í þeim kantónum þar sem þeir ollu mestu tjóni. Hins vegar voru síðan sett lög til að stemma stigu við því að veiðiheimildir yrðu veittar.

Í september 2023 tókst verndunarsinnum að blása til sóknar í þágu úlfanna og í opnu bréfi til framkvæmdastjórnar ESB sögðu átta friðunarsamtök að það mætti finna leiðir til að auðvelda sambúð manna og stórra villtra dýra eins og úlfa.

„Tjón á búfé má oft rekja til skorts á nægilegri umsjón og/eða beinni vernd,“ sagði í bréfinu. Samtökin sögðu að þjálfa mætti hunda til að verja sauðfé, mennta fjárhirða og beita tæknilegum úrræðum til að halda úlfunum í skefjum.

 

Heimild: The Local.ch

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …