Home / Fréttir / Svissneski utanríkisráðherrann reynir enn sáttaleið við ESB

Svissneski utanríkisráðherrann reynir enn sáttaleið við ESB

 

 Ignazio Cassis, utanríkisráðherra Sviss.
Ignazio Cassis, utanríkisráðherra Sviss.

Fjöldi tvíhliða samninga mótar samstarf Sviss og ESB. Um langt skeið hafa farið fram viðræður um að einfalda samstarfið og koma á fót kerfi sem tryggir að í raun sé fylgt samræmdum reglum. Nú vill utanríkisráðherra Sviss höggva á hnútinn með því að hann fái umboð til að ræða áfram við ESB á nýjum grunni.

Nokkur þáttaskil urðu í samskiptum Sviss og ESB árið 2014 þegar Svisslendingar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að fylgt skyldi kvóta-stefnu í innflytjendamálum. Sviss á aðild að Schengen-samstarfinu eins og Noregur og Ísland þótt landið, eitt EFTA-ríkja, standi utan EES-samstarfsins.

Kvóta-reglurnar sem samþykktar voru í Sviss brjóta gegn grunnreglu ESB um frjálsa för fólks. Samþykkt reglnanna gat leitt til þess að ESB sliti öllu samningsbundnu samstarfi við Sviss. Sú leið var þó ekki farin heldur ákveðið að hefja viðræður um nýja skipan á tvíhliða samstarfinu.

Viðræðurnar hafa verið erfiðar en eru nú í öngstræti meðal annars vegna þess að svissnesk yfirvöld hika við að samþykkja ESB-löggjöf um réttindi launþega. Ákvæðin snerta réttarstöðu heimamanna gagnvart innfluttu vinnuafli.

Svissneska stjórnin gaf til kynna í júní að ef til vill mætti slaka á svissnesku vinnulöggjöfinni í sáttaskyni. Viðbrögð svissneskra verkalýðsfélaga og manna úr öllum stjórnmálaflokkum urðu á þann veg að ekki mætti semja við ESB um neitt í þá veru.

Nú er hins vegar svo komið að Svisslendingar og fulltrúar ESB virðast hafa komist að samkomulagi um að gerðardómur muni leysa úr ágreiningi sem kann að rísa um lagatúlkun í samskiptum aðila. Upphaflega vildi ESB að ESB-dómstóllinn hefði lögsögu í slíkum málum en Svisslendingar hafna því. Er talið að með samkomulagi um gerðardóminn komist viðræðurnar af stað að nýju.

Í svissneska blaðinu SonntagsZeitung var skýrt frá því 2. september að Ignazio Cassis, utanríkisráðherra Sviss, ætli að leggja til innan svissnesku ríkisstjórnarinnar að viðræðunum við ESB yrði skipt í tvennt: Annars vegar verði skrifað undir samkomulag um hvernig leyst skuli úr lagalegum ágreiningi og hins vegar um að innan fimm ára skuli finna lausn á ágreiningi um vinnuréttarmál.

Verði þessi leið farin telja stjórnmálaskýrendur að báðir aðilar geti vel við unað. Fundin hafi verið leið til að jafna ágreining um lögfræðileg álitamál og gefinn sé tími til að skoða vinnuréttarmálin nánar.

Það ræðst nú í vikunni eða eftir eina viku hvort svissneska ríkisstjórnin felst á þessa tillögu.

 

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …