Home / Fréttir / Svisslendingar slíta viðræðum um heildarsamning við ESB

Svisslendingar slíta viðræðum um heildarsamning við ESB

Guy Parmelin, forseti Sviss, Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB.

Svisslendingar tilkynntu miðvikudaginn 26. maí að þeir hefðu slitið viðræðum við Brusselmenn um stofnana- og samstarfssamning við Evrópusambandið sem staðið hafa í sjö ár. Guy Parmelin, forseti Sviss, tilkynnti slit viðræðnanna á fundi með blaðamönnum í Bern, höfuðborg Sviss.

Guy Parmelin hitti Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, á fundi í Brussel undir lok apríl 2021. Þegar fulltrúar ESB höfnuðu óskum Parmelins um að samkomulagið ESB næði ekki til ríkisstyrkja, launaverndar og frjálsrar farar.

Svissneska ríkisstjórnin sagði 26. maí að á fundi sínum hefði hún farið yfir alla þætti viðræðnanna við ESB. Í tilkynningu að fundinum loknum segir að ríkisstjórnin telji að enn sé efnislegur ágreiningur gagnvart ESB um „lykilmál“. Þess vegna sé ekki unnt að skrifa undir neinn samning og hafi ESB verið skýrt frá því. Viðræðunum sé því hætt.

Framkvæmdastjórn ESB sagðist harma ákvörðun Svisslendinga.

Óvissa ríkir um hvað nú gerist í samskiptum Svisslendinga og ESB. Rúmur helmingur alls útflutnings Sviss fer til ESB-landa sem umlykja landið.

Markmið viðræðnanna var að fella 120 tvíhliða samninga milli ESB og Sviss í fimm meginsamninga.

Sviss er eina EFTA-ríkið sem ekki á aðild að EES en hins vegar taka Svisslendingar þátt í Schengen-samstarfinu.

Þrátt fyrir ákvörðun sína 26. maí óskaði ríkisstjórn Sviss eftir pólitískum viðræðum við Brusselmenn um framtíðarsamstarf. Það yrði báðum aðilum hagstætt að standa vörð um langvinna samvinnu sína og leggja skipulega rækt við þá samninga sem nú gilda.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …