Home / Fréttir / Sviss: Vopnsala til sjálfsvarnar eykst vegna öryggisleysis almennings

Sviss: Vopnsala til sjálfsvarnar eykst vegna öryggisleysis almennings

Vopnaverslun í Sviss.
Vopnaverslun í Sviss.

Svisslendingum sem sóttu um byssuleyfi fjölgaði á árinu 2016. Stjórnvöld í kantónum landsins birta tölur um þessar umsóknir og hefur þeim fjölgað alls staðar þar sem tölur höfðu verið birtar miðvikudaginn 4. janúar.

Í kantónunum Glarus, Solothurn og Thurgau fjölgaði umsóknum um byssuleyfi um 30% og var þeim næstum öllum svarað jákvætt. Svipaða sögu er að segja um þróunina annars staðar.

Fjölgunin í fyrra er sögð framhald þróunar sem hófst þegar á árinu 2015. Þá fjölgaði umsóknum almennt um 20%.

Á vefsíðu blaðsins Basler Zeitung segir vopnasali að meginástæða áhuga almennings á byssueign sé viljinn til sjálfsvarnar: „Að mörgum sækir öryggisleysi vegna hryðjuverka og frétta af innbrotum og þeir vilja geta varist sjálfir í neyðartilvikum,“ segir hann.

Samhliða öryggisleysinu skipta einnig fréttir um hugsanlega hert vopnalög innan ESB máli. Um nauðsyn hertra reglna hefur verið rætt síðan hryðjuverkin voru framin í París á árinu 2015. Ætlunin er sögð að heimila aðeins þeim sem eru í skotfélögum að eiga vopn. Um þetta hafa þó ekki verið teknar neinar lokaákvarðanir enn sem komið er. Þar sem Sviss er aðili að Schengen-samstarfinu verður að laga svissnesk vopnalög að ESB-lögum og herða ákvæði þeirra.

Í Basler Zeitung er vitnað í blaðið Rundschau þar sem byssueigandi sagði: „Hver veit hve lengi manni verður heimilt að kaupa og eiga vopn í Sviss.“ Þá er vitnað í lögfræðinginn Roger Groner sem segir fráleitt að ætla að takmarka vopnaeign á þessari stundu: „Við búum í heimi þar sem öryggisleysi verður sífellt meira vegna straums flóttamanna og innbrota.“ Hann mundi beita vopni sínu kæmu innbrotsþjófar honum á óvart á heimili hans.

Þá er rætt við byssusalann Jean-Paul Schild sem staðfestir aukinn áhuga á vopnakaupum til sjálfsvarnar: „Nú ber einnig svo við að konur kaupa skammbyssur vegna þess að þeim finnst öryggi sínu ógnað.“

Lögreglan hvetur almenning eindregið til að forðast að beita eigin vopni til sjálfsvarnar. Telji menn sér ógnað eigi þeir að hringja í lögregluna.

Heimild: Basler Zeitung

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …