Home / Fréttir / Sviptingar í gasinnflutningi Finna – semja við Texas-fyrirtæki

Sviptingar í gasinnflutningi Finna – semja við Texas-fyrirtæki

Finnska gasdreifikerfið.

Rússar hættu að senda jarðgas til Finnlands að morgni laugardags 21. maí. Olli Sipiläm, forstjóri Gasgrid, opinbera finnska dreifingarfyrirtækisins, sagði að þess í stað hefði fyrirtækið tengt kerfi sitt gasseljanda í Eystrasaltslöndunum og hefði umtengingin ekki valdið neinni truflun.

„Það ríkir nú jafnvægi innan finnska kerfisins,“ sagði hann við finnska ríkisútvarpið YLE. Auðvitað kynni alltaf eitthvað að fara úrskeiðis en á því yrði tekið.

Rússneska orkufyrirtækið Gazprom tilkynnti finnska ríkisfyrirtækinu Gasum föstudaginn 20. maí að þar sem Finnar hefðu neitað að greiða fyrir gas í rúblum yrði lokað á þá. Gasum hóf að búa sig undir lokunina miðvikudaginn 18. maí.

Gaslokunin kom til framkvæmda viku eftir að Rússar hættu að selja Finnum raforku, var um að ræð um 10% af raforkuneyslu Finna. Finnska landsnetið, Fingrid, sagði að við þetta mundi orkuverð í Finnlandi hækka til viðbótar við umtalsverðar verðhækkanir á árinu.

Frá og með laugardeginum 21. maí flytur Gasum inn jarðgas um

Balticconnector-gasleiðsluna sem tengir Inkoo á suðurströnd Finnlands við Paldiski í Eistlandi.

Jukka Leskelä, forstjóri samtaka finnskra orkufyrirtækja, segir að lokun Rússa á gasið sé „ekki stórmál“ fyrir finnska orkukerfið. Það kunni að valda einstökum fyrirtækjum vandræðum þegar fram líði stundir en ekki næstu mánuðina.

Til þessa hefur allt að 90% af innfluttu gasi til Finnlands komið frá Rússlandi en hlutdeild gass í heildarorkunotkun Finna er aðeins 6%.

Bandarískt jarðgasskip á leiðinni

Föstudaginn 20. maí efndu efnahags- og fjármálaráðuneyti Finnlands til kynningarfundar um ráðstafanir ríkisstjórnarinnar vegna lokunar Rússa á gassöluna. Sama dag var ritað undir samning af hálfu Gasgrid Finland við fyrirtæki í Texas í Bandaríkjunum, Excelerate Energy, um 10 ára leigu á jarðgasskipinu Exemplar. Sé fyrirsjáanlegur skortur á gasi í Finnlandi verður skipið nýtt til að flytja fljótandi jarðgas (LNG) sjóleiðina til landsins.

Gazprom seldi um 1,5 milljarða rúmmetra af gasi til Finnlands í fyrra. Það jafngildir tveimur þriðju af gasnotkuninni í landinu en aðeins 8% af heildarorkunotkuninni.

Í apríl hættu Rússar að selja gas til Póllands og Búlgaríu þar sem ekki var greitt fyrir það í rúblum. ESB-menn sögðu þetta „fjárkúgun“ af hálfu Rússa, Gaskaupendur í ESB-löndum sem komast ekki hjá því að flytja inn rússneskt gas ætla að opna rúblu-reikninga hjá banka Gazprom. Föstudaginn 20. maí sögðu stjórnvöld í Þýskalandi og á Ítalíu við stjórnendur fyrirtækja að þeir gætu opnað rúblureikninga til að kaupa gas frá Rússlandi án þess brjóta reglur ESB- um refsiaðgerðir gegn Rússum.

 

Heimild: YLE

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …