Home / Fréttir / Svíar vilja öflug tengsl við Bandaríkjanmenn – skipa sendiherra skipulagðrar glæpastarfsemi

Svíar vilja öflug tengsl við Bandaríkjanmenn – skipa sendiherra skipulagðrar glæpastarfsemi

Ann Linde utanríkisráðherra flytur Riksdagen skýrslu sína.
Ann Linde utanríkisráðherra flytur Riksdagen skýrslu sína.

„Náið samband okkar við Bandaríkin skiptir höfuðmáli fyrir öryggi Svíþjóðar og farsæld,“ sagði Ann Linde, utanríkisráðherra Svía, í sænska þinginu, Riksdagen, miðvikudaginn 12. febrúar þegar hún flutti þinginu skýrslu um utanríkismál.

Hún sagði að ekki væri unnt að búast við starfhæfu alþjóðasamfélagi án virkrar þátttöku Bandaríkjamanna. Það væri til vandræða að Bandaríkjamenn drægju sig út úr fjölþjóðlegu samstarfi. Sænska ynni að því að tryggja að viðskipti við Bandaríkin væru hindrunarlaus og hótanir um nýjar viðskiptahindranir kæmu ekki til framkvæmda.

Tengsl Rússa og Svía hafa verið stirð undanfarin misseri en ráðherrann sagði að þú væru óbreytt.

„Þar sem við hagsmunir eru sameiginlegir eigum við, eins og ESB, að starfa með Rússum. Þetta er í þágu öryggis okkar og stöðugleika í nágrenni okkar,“ sagði Linde og bætti við:

„Við fordæmum árás Rússa á Úkraínu og ólögmæta innlimun þeirra á Krímskaga. Þessi brot á alþjóðalögum ögra skipan öryggismála í Evrópu. Svíar styðja fullveldi Úkraínu og óskert landsyfirráð og rétt sérhvers ríkis til að velja eigin leið í öryggismálum.

Við vinnum að því að tryggja að viðhaldið sé refsiaðgerðum ESB gagnvart Rússum eins lengi og forsendur fyrir upptöku þeirra eru í gildi.“

Ráðherrann sagði að vaxandi hlutur Kínverja á alþjóðavettvangi skapaði bæði ný tækifæri og vanda. Hún fagnaði því að í Riksdagen hefði myndast samstaða um afstöðu ríkisstjórnarinnar til Kína sem kynnt var í skýrslu til þingsins undir lok árs 2019.

Stjórnin ætti í hreinskiptnum og opnum samtölum við Kínverja með vísan til eigin hagsmuna Svía og hagsmuna ESB. Þar væri hlutur mannréttinda og tjáningarfrelsisins mikilvægur.

Skipulögð glæpastarfsemi

Sænski utanríkisráðherrann sagði:

„Allir eiga rétt á að búa við öryggi án tillits til þess hvar þeir eiga heima. Þetta á við hér hjá okkur og í öðrum löndum. Enginn ætti að þurfa að líta áhyggjufullur um öxl á leið sinni heim úr skóla eða vinnu.

Frá því haustið 2014 hefur ríkisstjórnin gripið til ýmissa ráðstafana gegn skipulagðri glæpastarfsemi; refsingar hafa verið hertar og lögreglumönnum fjölgað, fyrir utan ýmsar forvarnir gegn glæpum.

Við vitum hins vegar að þessi tegund af glæpastarfsemi þrífst á erlendum samböndum.

Við kynnum þess vegna nýjar aðgerðir til að styrkja réttarvörsluna með starfsemi sendiráða okkar og alþjóðasamvinnu.

Við munum skipa sendiherra í utanríkisráðuneytinu til að halda utan um störf ráðuneytisins gegn skipulagðri glæpastarfsemi og til stuðnings yfistjórn sænskrar löggæslu.

Sendiráðum okkar verður falið að hafa auga á glæpastarfsemi sem tengist Svíþjóð. Sendiráðum okkar á stöðum eins og vestanverðum Balkanskaga, í suðurhluta Kákasus og Suður-Ameríku verður sérstaklega falið að forgangsraða þessum málaflokki. […]

Sænsk yfirvöld munu herða aðgerðir til að hefta straum vopna og fíkniefna og stíga ný skref gegn glæpum yfir landamæri og hryðjuverkum. Europol (Evrópulögreglan) og Eurojust (samstarf saksóknara) gegna lykilhlutverki á þessu sviði.“

 

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …