Home / Fréttir / Svíar stórefla hernaðarmátt sinn og varnir

Svíar stórefla hernaðarmátt sinn og varnir

3597

Svíar hafa vaknað af dvala og sjá nýjar ógnir við eigin dyrastaf. Nú er boðuð stóraukning á vígbúnaði landsins. „Við stöndum frammi fyrir mjög ógnvænlegri þróun heimsmála,“ segir Robert Dalsjö, rannsóknastjóri hjá FOI, Totalförsvarets forskningsinstitut, við sænska Aftonbladet.

Nýlega var birt skýrsla um hvernig staðið skuli að því að efla sænska heraflann og varnir Svíþjóðar. Styrkja skal viðbragðshæfni hersins, bæta tækjakost hans, auka sveigjanleika og sóknarafl.

Áform eru um að fjölga herflugvöllum, efla kafbátavarnir, endurnýja bryndreka, endurnýja loftvarnakerfi, smíða skip auk þess að láta heimavarnarliðinu í té sprengjuvörpur og brynvarin búnað.

Sænsku stjórnarflokkarnir, Miðflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sömdu undir lok ágúst að auka útgjöld til hermála um 20 milljarða sænskra króna fram til ársins 2025.

Þegar samkomulagið var kynnt sagði Peter Hultqvist varnarmálaráðherra að í því fælist mikilvæg staðfesting frá Svíum fyrir samstarfsaðila þeirra og nágranna um aukinn sænskan hernaðarmátt.

Ætlunin er að verja alls 84 milljörðum sænskra króna til varnarmála árið 2025. Í því felst hvorki meira né minna en 65% aukning miðað við árið 2019.

„Ástandið er mun verra en menn hafa almennt haldið. Það er þörf á að verja miklu fé til búnaðar sem sjaldan dregur að sér athygli eins og hermannastígvéla, varahluta og einkennisklæðnaðar,“ segir Robert Dalsjö rannsóknastjóri.

Ekki unnt að útiloka vopnaða árás á Svíþjóð

Formenn flokkanna fjögurra sem stóðu að samkomulaginu um aukin hernaðarútgjöld skrifuðu grein í dagblaðið Dagens Nyheter og skýrðu ástæðuna fyrir samkomulaginu.

Þeir fullyrða að staða öryggismála í nágrenni Svíþjóðar hafi versnað og benda meðal annars á þróun mála í Rússlandi og aukið öryggisleysi í Evrópu.

„Í skýrslunni um varnarmál er fullyrt að ekki sé unnt að útiloka vopnaða árás á Svíþjóð og við því verði að bregðast. Fjölþættar stríðsaðgerðir, vandi vegna grárra svæða, hertæknileg þróun og herfræðileg lega Svíþjóðar á sífellt mikilvægara Eystrasaltssvæðinu gerir nýjar kröfur til sænska hersins. Það snertir meðal annars úthald, viðbúnað og stríðshæfni,“ segja forystumenn stjórnarflokkanna og Miðflokksins og Frjálslynda flokksins í greininni.

Viðbúnaður verður aukinn á Gotlandi vegna ögrana Rússa.
Viðbúnaður verður aukinn á Gotlandi vegna ögrana Rússa.

Stefnt er að því að fjölga mannafla í sænska Heimavarnarliðinu og borgaralegum starfsmönnum hersins úr 60.000 í 90.000 menn. Á Gotlandi verður stofnuð ný vélaherdeild með eigin stórskotaliði og loftvarnakerfi. Undanfarin ár hafa Svíar orðið vitni að ögrandi ferðum rússneskra flugvéla í nágrenni Gotlands.

Gerðir hafa verið samningar um smíði tveggja Blekinge-kafbáta og endurnýja á þrjá gamla kafbáta af Gotland-gerð. Þá er ætlunin að halda úti tveimur deildum landgönguliða á vestur- og austurströnd Svíþjóðar.

Stefnt er að því sænski flugherinn ráði yfir 97 orrustuvélum, þar á meðal vélum að Jas 39E-gerð sem smíðaðar eru í Svíþjóð. Um borð í vélunum eru þjarkar sem nota má til að ná til skotmarka í mikilli fjarlægð.

„Það heyrast drunur yst við sjónarrönd á sama tíma og jörðin skelfur undir fótum okkar. Við sjáum Pútin sem vekur ótta og Trump sem hefur slítandi áhrif í vestri. Best er að þurfa ekki að takast á við þessar aðstæður í sundskýlu og á sandölum,“ segir Robert Dalsjö, rannsóknastjóri hjá Totalförsvarets forskningsinstitut, við Aftonbladet.

 

Heimild: ABC Nyheter 17. september 2019.

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …