Home / Fréttir / Svíar skotmark múslímsks hryðjuverkamanns í Brussel

Svíar skotmark múslímsks hryðjuverkamanns í Brussel

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíar, segir hryðjuverkið í Brussel kalla á aukna landamæravörslu.

Hryðjuverkamaður skaut tvo Svía til bana og særði þann þriðja í Brussel mánudaginn 16. október. Árásina gerði hann um klukkan 19.00 að staðartíma en Svíarnir voru í borginni til að fylgjast með knattspyrnuleik.

Ódæðismaðurinn, Abdesalem Lassoued, var 45 ára frá Túnis. Belgíska lögreglan þekkti til hans vegna ólöglegrar dvalar og brotaferils hans, meðal annars smyglaði hann fólki inn á Schengensvæðið. Árið 2016 bentu erlend lögregluyfirvöld belgísku lögreglunni á að maðurinn boðaði öfgaskoðanir á samfélagsmiðlum. Hann sótti um hæli í Belgíu árið 2019 en umsókn hans var hafnað árið 2020 og skömmu síðar missti lögregla sjónar á honum. Tveimur árum síðar, 2022, sást til hans í mosku í Brussel. Var atvikið tilkynnt til lögreglu sem hafðist ekkert að í málinu.

Í myndskeiði sem Lassoued birti sagðist hann hafa drepið „þrjá Svía“ til að „ná fram hefndum í nafni múslíma“. Hann sagðist ekki koma frá íslömsku ríki en sagði: „Við elskum þá sem elska okkur og við hötum þá sem hata okkur. Við lifum fyrir trú okkar. Bróðir ykkar náði fram hefndum í nafni múslíma. Ég hef þegar drepið þrjá Svía.“

Eftir skotárásina forðaði árásarmaðurinn sér á rafhlaupahjóli með vélbyssu sína. Var hans leitað alla nóttina en undir morgun 17. október fann lögregla hann á kaffihúsi í Schaerbeek-hverfinu í Brussel. Beitti lögregla skotvopnum við handtökuna og særðist Lassoued í átökunum og dó á leiðinni í sjúkrahús.

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, efndi til blaðamannafundar að morgni þriðjudagsins 17. október vegna voðaverksins í Brussel. Hann hvatti til þess að ytri landamæravarsla  Evrópu yrði aukin samhliða auknum völdum lögreglu. Hann upplýsti jafnframt að Abdesalem Lassoued hefði komið öðru hverju til Svíþjóðar.

„Við verðum að vita hverjir eru í Svíþjóð og vita að þeir séu löglega í Svíþjóð. Séu þeir ekki löglega hér verða þeir að fara úr landi,“ sagði forsætisráðherrann.

Hann sagði allt benda til þess að ráðist hefði verið á mennina þrjá af því að þeir væru Svíar. Belgíska lögreglan færi með rannsókn málsins en hún legði þetta mat á tilgang árásarinnar á þeirri stundu sem blaðamannafundurinn var haldinn. Alexander De Cro, forsætisráðherra Belgíu, hefði sagt sér að ódæðismaðurinn hefði líklega staðið einn að verki. Náin samvinna væri á milli belgísku og sænsku lögreglunnar.

„Það er erfitt að átta sig á hve víðtækar afleiðingar þessa hryðjuverks verða,“ sagði Kristersson. „Við lifum á myrkum tímum og höfum vitað það um nokkurt skeið. Svíþjóð og sænskir hagsmunir hafa í samtímanum aldrei búið við jafnmikla ógn og núna. Hryðjuverkamennirnir vilja hræða okkur til þagnar og hlýðni en það gerist ekki. Frjálsi heimurinn stendur að baki okkur við þessar aðstæður.“

Forsætisráðherrann sagði líkindi milli bylgju ofbeldisfullra gengjaátaka í Svíþjóð undanfarið og „fyrirlitlegu“ árásarinnar í Brussel. Það væri því ekki að ófyrirsynju að sænska öryggislögreglan, Säpo, hefði hækkað hættustigið úr þremur í fjóra á liðnu sumri.

„Nú blasir við sá napri veruleiki að það voru ríkar ástæður fyrir áhyggjunum sem lögreglan og við lýstum á þeim tíma.“

Ulf Kristersson var spurður um hvað Svíar staddir erlendis ættu að gera. Hann sagði að þeir ættu ávallt að geta sagt með stolti að þeir kæmu frá Svíþjóð og bætti við:

„Ég get ekki ráðlagt sænskum einstaklingum neitt. Hitt er alveg ljóst að það að vera Svíi tengist vissri ógn á ákveðnum stöðum.“

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …