Home / Fréttir / Svíar semja um hermál við Pólverja – krefja Rússa svara – vilja í NATO

Svíar semja um hermál við Pólverja – krefja Rússa svara – vilja í NATO

Sænskir hermenn á æfingu undir merkjum NATO sumarið 2015.
Sænskir hermenn á æfingu undir merkjum NATO sumarið 2015.

Varnarmálaráðherrar Póllands og Svíþjóðar rituðu undir samning um hernaðarsamstarf mánudaginn 14. september í Varsjá. Pólland er í NATO en Svíþjóð utan bandalagsins en stjórnvöld landanna hafa sameiginlegar áhyggjur af auknum hernaðarumsvifum Rússa á Eystrasalti.

„Eystrasaltið var eitt sinn haf friðar en er nú haf hættu,“ sagði Tomasz Siemoniak, varnarmálaráðherra Póllands, á blaðamannafundi með Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, við undirritun samningsins.

Hultqist sagði að meiri umferð rússneskra herskipa og hervéla á og yfir Eystrasalti hefði knúið á um tvær lykilákvarðanir sænsku ríkisstjórnarinnar í öryggismálum.

Hin fyrri væri að auka útgjöld til varnarmála um 11% á fimm árum og hin síðari að efla samstarf við NATO í heild og einstök aðildarríki þess.

Föstudaginn 11. september var rússneski sendiherrann í Stokkhólmi kallaður til fundar við Margot Wallström utanríkisráðherra sem vildi vita hvað fælist í þeim orðum hans að Svíar mundu sæta „gagnaðgerðum“ ef þeir gengju í NATO.

Viktor Tatarintsev, sendiherra Rússa í Svíþjóð (hann var sendiherra á Íslandi til 2010), sagði 18. júní 2015 í samtali við Dagens Nyheter að eins og málum væri þá háttað væru Svíar „ekki skotmark rússneska hersins“ en hyrfu þeir frá hlutleysisstefnu sinni og gengju í NATO myndu Rússar grípa til „gagnráðstafana“.

Nú þremur mánuðum síðar hefur sænski utanríkisráðherrann óskað eftir skýringum á þessum orðum. Þegar ráðherrann skýrði frá því að hún ætlaði að ræða við sendiherrann sagði hún við TT-fréttastofuna:

„Við erum sjálfstætt ríki og við tökum ákvarðanir um stefnu okkar í öryggismálum og hvert efni hennar er. Að okkar mati á enginn að hafa í hótunum við okkur og ég hef boðað rússneska sendiherrann á minn fund til að fá tækifæri til að spyrja hann nokkurra spurninga og til að hann geti skýrt mál sitt.“

Sunnudaginn 13. september birti Svenska Dagbladet niðurstöðu skoðanakönnunar sem sýnir að 41% Svía vilja ganga í NATO, 39% eru á móti en 20% eru hvorki með né á móti. Könnunin sýnir skjót umskipti í afstöðu sænsks almennings til NATO-aðildar.

Jafnaðarmaðurinn og stjórnmálafræðingurinn Ulf Bjeredal sagði við TT-fréttastofuna sunnudaginn 13. september að hann teldi tvo þætti ráða mestu um þessa afstöðu Svía og skyndilega breytingu hennar í átt til NATO: í fyrsta lagi ógnandi framgöngu Rússa og í öðru lagi að Sverker Göranson, fráfarandi yfirmaður sænska hersins, hefði sagt að yrði ráðist á Svía gætu þeir aðeins varið land sitt í viku.

Könnunin sýnir að stuðningur Svía við NATO-aðild hefur aukist um 10 prósentustig frá því í maí 2015, þegar stuðningurinn var 39%, hann var 29% árið 2013 og aðeins 17% árið 2012.

Sifo gerði þessa könnun dagana 2. til 8. september eftir að forystumenn tveggja stjórnarandstöðuflokka Miðflokksins og Kristilega flokksins höfðu lýst stuðningi við NATO-aðild. Kúvending þessara flokka sýnir að allir  borgaraflokkarnir fjórir sem mynda stjórnarandstöðu gegn Jafnaðarmönnum og græningjum vilja aðild að NATO.

Innan Jafnaðarmannaflokksins eru skoðanir skiptar um aðild að NATO, 52% flokksmanna segjast andvígir henni en 30% styðja aðild. Meðal græningja eru 67% á móti en 27% með.

Opinber stefna Svíþjóðardemókrata er andstæð NATO-aðild en könnun Sifo sýnir að 54% kjósenda flokksins vilja aðild.

 

Heimild: www.thelocal.se

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …