Home / Fréttir / Svíar reka fimm rússneska sendiráðsmenn úr landi

Svíar reka fimm rússneska sendiráðsmenn úr landi

Rússneska sendiráðið í Stokkhólmi.

Sænska ríkisstjórnin rak þriðjudaginn 25. apríl fimm rússneska sendiráðsmenn úr landi fyrir brot á Vínarsamningnum um stjórnmálasamband ríkja.

Tóbias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, sagði í útvarpssamtali að sænsk stjórnvöld hefðu skýrt rússneska sendiherranum í Stokkhólmi, Viktor Tatarintsev, frá því að fimm starfsmenn sendiráðs hans ættu að yfirgefa landið vegna þess að starfsemi þeirra bryti gegn Vínarsamningnum um stjórnmálasamband.

Sænska öryggislögreglan, SÄPO, telur að þriðji hver starfsmaður rússneska sendiráðsins starfi á vegum einhverrar af leyniþjónustum Rússa.

Viktor Tatarintsev var sendiherra Rússa á Íslandi. Hann gekk á fund Sturlu Sigurjónssonar, þáv. utanríkisráðgjafa Geirs H. Haarde forsætisráðherra og sagði að Geir hefði móðgað Vladimir Pútin Rússlandsforseta á ríkisoddvitafundi NATO í Búkarest sem Pútin sat þegar Geir fann að ferðum rússneskra hervéla við Ísland. Þegar Sturla sagði Íslendinga hafa fullan rétt til að gæta íslenskra hagsmuna og fullveldis á þennan veg, svaraði sendiherrann að Íslendingum kæmi þetta flug ekkert við, hér væri um að ræða mál milli Rússa og Bandaríkjamanna.

Þessi sami Viktor Tatarintsev hljóp á sig hér í október 2008 eftir bankahrunið með því að gefa til kynna við seðlabankann að Rússar myndu hugsanlega veita Íslendingum fjárhagslega fyrirgreiðslu með láni. Eftir að sagt var frá framtaki sendiherrans í hádegisfréttum ríkisútvarpsins fylltist Viktor Tatarintsev skelfingu enda hafði hann lofað upp í ermina á sér án fyrirmæla eða umboðs frá Moskvu. Varð aldrei neitt frekar minnst á þetta opinberlega.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …