Home / Fréttir / Svíar ræða náið varnarsamstarf við Bandaríkjamenn

Svíar ræða náið varnarsamstarf við Bandaríkjamenn

Pål Jonson, varnarmálaráðherra Svia.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði mánudaginn 9. janúar við sænska Aftonbladet að Svíar hefðu gert meira en nóg til að verða fullgildir aðilar að NATO. Andmælti hann með þessum orðum þvermóðsku Tyrkja og töfum á að þeir samþykki NATO-aðild Finna og Svía.

Þriðjudaginn 10. janúar skýrði sænska varnarmálaráðuneytið frá því að viðræður væru við Bandaríkjastjórn um „jafnvel enn nánara samstarf við Bandaríkjamenn bæði tvíhliða og á vettvangi NATO“.

Ekki hefur verið skýrt frá inntaki viðræðnanna um samning um varnarsamstarf (e. Defence Cooperation Agreement (DCA)). Í skriflegu svari til AFP-fréttastofunnar sagði sænski varnarmálaráðherrann, Pål Jonson, að þær snerust um að „auðveldara yrði fyrir bandarískt herlið að athafna sig í Svíþjóð“.

Samkomulagið kynni að ná til geymslu hergagna, mannvirkjagerð og lögheimildir vegna bandarísks herliðs í Svíþjóð. Viðræðurnar mætti rekja til þess að Svíar séu að verða bandamenn Bandaríkjanna með aðild að NATO.

Tyrkir draga samþykki sitt við NATO-aðild Svía vegna þess að tyrkneskum stjórnvöldum þykir Kúrdar of hátt skrifaðir í Svíþjóð, innan raða þeirra séu „hryðjuverkasamtök“. Vilja Tyrkir frá framselda einstaklinga sem sakaðir eru um aðild að tilraun til að hrekja Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, frá völdum árið 2016.

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði á ráðstefnu um öryggismál sunnudaginn 8. janúar að Svíar gætu ekki orðið við sumum kröfum Tyrkja. Forsætisráðherrann hitti Erdogan á fundi í Tyrklandi í desember.

„Tyrkir hafa staðfest að við höfum gert það sem við ætluðum að gera en þeir vilja einnig annað sem við getum ekki gert og viljum ekki gera,“ sagði Kristersson.

 

 

 

Skoða einnig

Óljósar fregnir af lögsögukröfum Rússa á Eystrasalti vekja grunsemdir

  Rússnesk stjórnvöld kynntu miðvikudaginn 22. maí áform um að breyta ytri markalínum rússneskra yfirráðasvæða …