Home / Fréttir / Svíar öruggari innan NATO – segir í nýrri skýrslu

Svíar öruggari innan NATO – segir í nýrri skýrslu

 

Þýakur hermaður á heræfingu í Litháen.
Þýakur hermaður á heræfingu í Litháen.

Verði stríð á Eystrasalti kunna Rússar að ráðast fyrst á Svíþjóð. Svíar geta þó ekki varist án aðstoðar annarra. Þetta kemur fram í skýrslu sem afhent verður sænsku ríkisstjórninni í föstudaginn 9. september og sýnir að það hefur fleiri kosti fyrir Svía að ganga í NATO segir í grein eftir Mikael Holmström í sænska blaðinu Dagens Nyheter (DN) sem birtist á vefsíðu blaðsins fimmtudaginn 8. september eftir að blaðamaðurinn hafði lesið skýrsluna.

Skýrsluna sem Margot Wallström, utanríkisráðherra Svía, fær afhenta 9. september samdi Krister Bringéus sendiherra og ber hún heitið Säkerhet i ny tid – Öryggi á nýjum tímum. Niðurstaðan er að betra sé fyrir Svía að vera innan NATO en utan þótt ekki sé lögð fram nein tillaga um það. Í DN segir að lykilsetningin í skýrslunni sé þessi:

„Greinilegustu áhrif aðildar að NATO yrðu eftir öllu að dæma að öryggisleysið sem ríkir nú um hvernig sameiginlegt átak yrði framkvæmt í krísu á Eystrasalti hverfur og sameiginlegur vilji Vesturlanda til að bregðast við átökum mundi þar með aukast.“

Skýrslan er samin á grundvelli samkomulags fimm sænskra stjórnmálaflokka árið 2015. Borgaraflokkarnir þrír kröfðust þess að skýrsla yrði gerð um aðild að NATO en vinstri flokkarnir tveir, sem nú sitja í stjórn, vildu ekki hverfa frá stefnunni um að standa utan hernaðarbandalaga. Niðurstaðan var málamiðlun um að fenginn yrði „frístandandi“ skýrsluhöfundur.

Í skýrslunni er lýst dökkri mynd af nágrenni Svíþjóðar á tímum þegar Rússar sýna Vesturlöndum æ meiri óvild. Nú sé „nýtt normalástand í öryggismálum í Evrópu“ þar sem átakalínan milli Rússlands og Vesturlanda hefur flust frá Mið-Evópu til Eystrasaltssvæðisins.

Rætt er um Rússland sem „eina ríkið í nágrenni Svíþjóðar sem hugsanlega kunni að beita herafla gagnvart nágrönnum sínum“.

Útilokað er að aðeins verði ráðist á Svíþjóð. Hins vegar verði að líta á Eystrasaltið sem strategíska heild, það er sem átakasvæði fyrir Rússland og NATO. Þess vegna verði Svíar að búa sig undir að dragast á fyrstu stigum inn í hernaðarátök milli Rússa og Eistlendinga, Letta og Litháa.

Skýrsluhöfundur segir að ólíklegt sé að til hernaðarátaka komi en verði þau engu að síður yrðu afleiðingarnar hörmulegar. Hættan á stríði sé mest vegna þess hve mikil óvissa ríki um stefnu og áform Rússa.

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …