Home / Fréttir / Svíar orðnir aðilar að NATO – 7. mars 2024

Svíar orðnir aðilar að NATO – 7. mars 2024

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Washington 7. mars 2024.

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, afhenti Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, aðildarskjöl því til staðfestingar fimmtudaginn 7. mars 2024 að Svíþjóð gengi í Atlantshafsbandalagið (NATO). Atlantshafssáttmálinn, stofnskrá NATO, er í vörslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna í Washington. Með afhendingu skjalsins er aðildarferli Svía lokið og verður fáni þeirra dreginn að húni við aðalstöðvar bandalagsins í Brussel mánudaginn 11. mars.

Blinken fagnaði aðild Svía og sagði sér heiður að verða fyrstur til að óska þeim til hamingju. Ulf Kristersson sagði þetta sannarlega sögulegan dag.

„Að Svíar séu aðilar að NATO markar ekki nein endalok heldur upphaf. Ég mun leggja mig fram um að auka öryggi og frelsi í heiminum með Bandaríkjamönnum og öðrum aðildarþjóðum NATO,“ sagði Kristersson. Hann ávarpaði sænsku þjóðina í sjónvarpi að kvöldi 7. mars.

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og Alexander Stubb Finnlandsforseti voru 7. mars í Finnmörku í Noregi og fylgdust með heræfingunni Nordic Response sem er liður í NATO-æfingunni Steadfast Defender 2024. Þegar þeim barst fréttin um að NATO-aðild Svía hefði verið formlega staðfest hringdu þeir Støre og Stubb í forsætisráðherra Svíþjóðar og fluttu honum heillaóskir sínar.

„Þetta er sögulegur dagur. Nú þegar Finnland og Svíþjóð eru aðilar að NATO verða tengslin milli okkar enn nánari en áður, það er mikilvægt fyrir öryggi okkar og það er mikilvægt fyrir NATO og Norðurlöndin,“ segir í tilkynningu norska forsætisráðherrans.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, fagnaði einnig stækkun bandalagsins:

„Þetta er sögulegur dagur. Svíar setjast nú í réttmætt sæti við borð NATO með sama rétti og aðrir til að móta stefnu NATO og ákvarðanir. Eftir að hafa staðið í 200 ár utan bandalaga njóta Svíar nú verndar af 5. greininni, lokatryggingu bandalagsins fyrir friði og öryggi.“

Magdalena Andersson, leiðtogi sænskra jafnaðarmanna, fagnaði aðildinni, hún tryggði Svíþjóð aukið öryggi og öflugri varnir. Svíar gætu nú betur en áður varið frelsi sitt, lýðræði og lífskjör. Aðildarferlið hófst í maí 2022 þegar Andersson var forsætisráðherra.

Formenn Frjálslynda flokksins og Kristilegra demókrata taka í sama streng og Andersson.

Það kveður hins vegar við annan tón hjá Hönnu Gunnarsson, málsvara Vinstriflokksins í varnarmálum. Hún segir að þessu verði ekki breytt en nú séu mörg grundvallarviðhorf að baki. Það megi þó ekki láta deigan síga heldur verði að vinna að því að styrkja öflugar sænskar allsherjarvarnir auk þess að tala eigin röddu á alþjóðavettvangi í þágu mannréttinda, friðar og þróunar.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …